Upp­gjörið: ÍA - Grinda­vík 91-94 | Toppliðið heldur á­fram eftir há­spennu

Sverrir Mar Smárason skrifar
DeAndre Kane og félagar virðast óstöðvandi í Bónus-deildinni.
DeAndre Kane og félagar virðast óstöðvandi í Bónus-deildinni.

Skagamenn tóku á móti Grindavík í AvAir höllinni á Akranesi í 13. umferð Bónus deildar karla í kvöld. Heimamenn í ÍA leiddu mest allan leikinn en að lokum voru það gestirnir frá Grindavík sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Það voru gestirnir sem fóru betur af stað og gerðu fyrstu 5 stig leiksins en við það vöknuðu heimamenn og voru fljótlega komnir yfir 7-5.

Grindvíkingar voru í bílstjórasætinu í fyrsta leikhluta, náðu að halda skagamönnum alltaf einni körfu á eftir sér. Eftir 1. leikhluta var staðan 23-25, Grindavík í vil.

2. leikhluti fór af stað alveg eins og sá fyrsti. Grindavík komst 8 stigum yfir en það virtist hafa slegið Skagamenn aðeins í gang því um miðjan leikhlutann hitti Styrmir Jónasson úr þriggja stiga skoti til þess að koma Skagamönnum yfir 39-36. Það var forysta sem heimamenn ætluðu ekki að láta af hendi svo auðveldlega og gerðu ekki. Hálfleikstölur 49-45 ÍA í vil.

ÍA hóf síðari hálfleikinn betur og voru snemma komnir átta stigum yfir. Grindavík náði þó að halda forystu Skagamanna í lágmarki og eftir að hafa skipst á að skora körfur undir lok leikhlutans var staðan 70-66 þegar 3. leikhluti kláraðist.

Fjórði leikhluti var mjög spennandi og liðin skiptust á að leiða framan af. Grindavík náði yfirhöndinni þegar um 4 mínútur voru eftir og svo gerðist það sem fór endanlega með sigurinn fyrir þá. Khalil Shabazz fiskaði tvær tæknivillur á leikmenn ÍA og hitti úr fjórum vítaskotum til þess að koma Grindavík sjö stigum yfir með undir tvær mínútur eftir. Skagamenn náðu þó að gera þetta spennandi undir lokin og áttu eina sókn eftir þegar munurinn var orðin þrjú stig en það gekk ekki og lokatölur því 91-94, gestunum í vil sem eru að stinga af á toppi deildarinnar.

Atvik leiksins

Það var algjörlega glórulaust atvik undir lok leiksins. Khalil Shabazz stökk með öxlina í bringuna á Styrmi, féll með tilþrifum og hreinlega fiskaði villu beint fyrir framan nefið á dómaranum. Ekki bara villu heldur tæknivillu á Styrmi og Ilja fær svo sömuleiðis tæknivillu fyrir mótmæli. Shabazz skoraði út fjórum vítum og fór langt með sigurinn fyrir Grindavík þar.

Stjörnur og skúrkar

Josip Barnjak var lang bestur í liði ÍA þangað til hann fékk sína fimmtu villu. 21-7-4 lína og 30 framlagspunktar frá honum. Daryll Morsell kom vel inn í lið ÍA í sínum fyrsta leik eftir skiptin frá Keflavík. Hann klikkaði þó á öllum 7 þriggja stiga skotunum sínum sem telur þungt að lokum.

Khalil Shabazz var stigahæstur í leiknum en hann gerði 25 stig fyrir Grindavík. Daniel Mortensen tók 8 fráköst og skoraði nokkrar mikilvægar körfur sömuleiðis.

Dómararnir

Það verður ekki annað sagt eftir þennan leik en að dómararnir hafi í raun aldrei náð almennilegum tökum á þessum leik. Héldu fundi útá velli með leikmönnum reglulega og bæði lið virtust bara mjög ósátt við þá allan leikinn. Það voru svo þessi stóru atvik undir lokin sem verður rætt um í spjallþáttum.

Umgjörð og stemning

Skagamenn halda áfram að bjóða uppá góða umgjörð í nýja húsinu. Stemning og læti allan leikinn en Grinvíkingar mættu vel og studdu sitt lið. Það gefur þessu alltaf góðan anda þegar bæði lið eru mætt af krafti.

Viðtöl

Óskar: Við höldum bara áfram að berjast

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, var sáttur við frammistöðu sinna manna í kvöld en að vonum ósáttur með að ná ekki að vinna að lokum eftir að hafa leitt mest allan leikinn.

„Mér fannst frammistaðan okkar þannig séð bara mjög flott í kvöld. “ sagði Óskar Þór.

Stóra atvikið sem talað er um hér að ofan gerðist beint fyrir framan Óskar og hann hafði sína skoðun á því.

„Mér finnst Khalil bara hoppa beint inn í Styrmi vera bara að leita að snertingu en ekkert að leita að skotinu sínu. Fyrir mér er þetta ekki villa. Jú það voru viðbrögð frá okkar mönnum en það höfðu líka verið viðbrögð frá Grindvíkingum allan leikinn. Mér fannst ósanngjarnt hvernig var tekið á okkur miðað við þá. En þetta var bara risa atvik sem snéri alveg við leiknum“ sagði Óskar um atvikið.

Skagamenn hafa gert breytingar á sínu liði í annað skiptið á þessu tímabili. Fá inn Daryll Morsell frá Keflavík og Victor Bafutto sem lék með liðinu í fyrra er kominn aftur. Það virtist vera allt annar bragur á liði ÍA í kvöld.

„Við erum bara mjög litlir þegar Gojko Zudzum er ekki með. Við erum ekki með marga stóra íslenska leikmenn á bekknum. Júlíus stóð sig mjög vel í dag að koma inn í það hlutverk sem var frábært. Við vitum að ef við ætlum að halda okkur uppi þá þurfum við að ná nokkrum sigrum núna áður en Gojko kemur til baka. Það er nóg eftir af þessu og eins og þú sérð þá er þessi deild bara þannig að við stöndum í stóru liðunum hérna heima. Við vitum það og ef við mætum á réttum degi þá getum við unnið hvern sem er. Við höldum bara áfram að berjast,“ sagði þjálfari Skagamanna að lokum.

Jóhann: Úrslitakeppnislæti hérna og það var kannski það sem kom okkur aðeins á óvart

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður að ná að landa þessum torsótta sigri að lokum í AvAir hölinni í kvöld. Stemningin og umgjörðin kom honum á óvart.

„Þetta var kannski ekki erfiðara en ég bjóst við en Skagamenn eru bara með hörku gott lið. Mögulega var eitthvað vanmat í okkar liði því við undirbjuggum leikinn eins og Gojko yrði með. Það fór öll vikan í það. Þetta riðlaðist kannski aðeins við að hann var ekki með en við héldum okkur inní leiknum allan tímann. Skagamenn spiluðu bara vel. Geggjaður heimavöllur, úrslitakeppnislæti hérna og það var kannski það sem kom okkur aðeins á óvart,“ sagði Jóhann.

En hvernig sá hann tæknivilludómana?

„Ég hélt að þeir væru hættir að dæma á svona sko. Mögulega hoppar Styrmir eitthvað fram og lendir á honum. Á móti kemur er aldrei villa á Jordan hérna á Daryll sem fær þrjú skot og kemur ÍA aftur inn í þetta. Það er alls konar fram og til baka í þessu,“ sagði þjálfari Grindavíkur.

Grindavíkurliðið hefur unnið 12 af 13 leikjum á tímabilinu, tapa þeir fleiri leikjum áður en úrslitakeppnin hefst?

„Við erum bara að fara í hörkuleik á móti Stjörnunni í bikar á sunnudaginn. Þetta er risa janúarmánuður og það er smá ströggl á skrokkum hjá okkur. Við erum bara að fara þangað á sunnudaginn og ég er ekki kominn neitt lengra en það“ sagði Jóhann Þór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira