Skoðun

ESB: Penninn og sverðið, að­gangur og yfir­ráð

Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar

Þann 26. desember 2025 birtist grein á Vísi.is eftir Hjört J. Guðmundsson, sagnfræðing og alþjóðastjórnmálafræðing, sem nefnist „Fleiri ásælast Grænland en Trump“.[1] Í stað þess að rekja punkt hennar nákvæmlega og mistúlka eitthvað í óvarlegri endursögn, legg ég til að lesendur lesi grein hans, enda er hún stutt og skorinort.

Í greininni eru gerð tvenn mistök sem er vert að vekja athygli á.

Penninn og sverðið

Í fyrsta lagi er enginn greinarmunur gerður á því að sameina Evrópu með sverðinu og að sameina Evrópu með pennanum, heldur er áhersla lögð á að markmið Evrópusambandsins og nefndra einræðisfanta sé hið sama.

En hvort að markmiðum sé náð með ofbeldi eða samningum er ekki aukaatriði heldur aðalatriði.

Að kaupa vöru úti í búð er ekki það sama og að ræna búðina. Að ráða mann í vinnu er ekki það sama og að hýða þræl með svipu. Að fara í heimsókn til manns er ekki það sama og að brjótast inn til hans. Þótt markmið einhvers sem kaupir hlut sé hið sama og þess sem rænir honum með vopnavaldi, þá eru kaup og vopnað rán gjörsamlega eðlisólík fyrirbæri.

Sömuleiðis er sameining Evrópu með pennanum, þ.e.a.s. frjálsir samningar á milli fullvalda ríkja um náið samstarf í sameiginlegri hagsmunavernd, eðlisólíkt nokkru því sem einræðisherrar fortíðarinnar reyndu til að sameina Evrópu, eða því sem Donald Trump hótar nú Grænlandi og Danmörku.

Þessi munur er ekki smávægilegt tækniatriði, heldur gerir þetta greinarmuninn á villimennsku og siðmenningu. Enginn ágreiningur virðist þó vera um að Evrópusambandið beitir pennanum.

Aðgangur og yfirráð

Seinni mistökin eru sama eðlis, að enginn greinarmunur er gerður á hlutum sem eru í grundvallaratriðum ólík fyrirbæri; aðgangi og yfirráðum.

Í greininni kemur fram að Evrópusambandið vilji „ná yfirráðum“ yfir Grænlandi, Íslandi, Noregi og sérstaklega auðlindum þeirra, en vísar í þeim efnum til nýlega samþykktrar skýrslu Evrópuþingsins.[2] Hið rétta er að skýrslan bendir á augljósa hagsmuni Evrópusambandsins af því að fá „aðgang“ að mörkuðum fleiri ríkja og auðlinda þeirra. Ástæðan er einnig rakin, sú afleita staða að vera háð árásargjörnu einræðisríki í landvinningastríði, um nauðsynjar eins og orku. Eðlilega vill Evrópusambandið frekar versla nauðsynjar frá frjálslyndum lýðræðisríkjum. Þó það nú væri.

Sá göfugi metnaður er málaður upp sem á einhvern hátt gruggugur og jafnvel ógnvænlegur, en það tekst einungis með því að misskilja orðið „aðgangur“ sem „yfirráð“. En skýrslan kallar einfaldlega ekki eftir yfirráðum; sú túlkun er efnislega röng eins og sést best með lestri skýrslunnar sjálfrar.

Mátum sama rugling við sömu hversdagslegu dæmi og voru rakin áðan; ef maður vill aðgang að matvöruverslun, þýðir það að maður hyggist ná yfirráðum yfir henni? Ef maður vill aðgang að vinnumarkaði, þýðir það að maður hyggist ná yfirráðum yfir honum? Ef maður vill aðgang að lánsfé hjá banka, þýðir það að maður hyggist taka yfir bankann? Nei, auðvitað ekki.

Þessi hugtök þýða gjörólíka hluti.

En hvers vegna?

Það er ekki undirritaðs að geta til um hvers vegna þessum hugtökum er slegið svona saman. Hins vegar má benda á, að ruglingurinn er nauðsynlegur til þess að komast að þeirri niðurstöðu að Evrópusambandið ætli sér að taka yfir heilu þjóðríkin og auðlindir þeirra, vegna þess að þeirri hugmynd finnst hvergi staður í skýrslunni sjálfri.

Þvert á móti margítrekar skýrslan mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar þjóðríkja almennt og sérstaklega Grænlands, enda er hann óumdeildur innan Evrópu. Skýrslan leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að styðja við réttindi og sjálfstæði ríkjanna við Norðurheimskautsbauginn. Reyndar er heili drifkraftur skýrslunnar einmitt sú viðleitni að verja sjálfsákvörðunarrétt lýðræðisríkjanna, bæði í Evrópusambandinu og við Norðurheimskautið, gegn ágangi gerræðisríkja eins og Rússlands. Þessu þarna með sverðið.

Skýrslan kallar vissulega eftir því að vel verði tekið í aðild ríkjanna við Norðurheimskautsbauginn ef þau vilja gerast aðildarríki, en það þýðir ekki að Evrópusambandið hyggist ná yfirráðum yfir þeim.

Því að eins og hitt, er þetta tvennt heldur ekki hið sama.


[1] Fleiri ásælast Grænland en Trump

[2] EU's diplomatic strategy and geopolitical cooperation in the Arctic




Skoðun

Sjá meira


×