Um­fjöllun: Afturelding-Haukar 31-22 | Mosfellingar léku sér að toppliðinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Afturelding hefur dregist aðeins aftur úr toppbaráttu Olís deildarinna en stimplaði sig aftur inn með sigrinum í kvöld.
Afturelding hefur dregist aðeins aftur úr toppbaráttu Olís deildarinna en stimplaði sig aftur inn með sigrinum í kvöld. vísir/Anton Brink

Gunnar Magnússon mætti á sinn gamla heimavöll þegar Haukar heimsóttu Aftureldingu í 12. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Því miður fyrir hann og þá gerðu Haukar sér fýluferð á Varmá en Afturelding vann sannfærandi níu marka sigur. Lokatölur 31-22.

Leikurinn fór vel af stað hér á Varmá en jafnræði var með liðunum framan af í fyrri hálfleik þar sem þau skoruðu til skiptis. Í stöðunni 6 - 6 tóku heimamenn hins vegar alfarið yfir leikinn. Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Aftureldingar, gjörsamlega lokaði markinu en Einar var með 55 prósent markvörslu í fyrri hálfleik. Hrun Hauka var algjört því liðið tapaði hverjum boltanum á fætur öðrum ásamt því að markvarslan var lítil sem engin. Á 10 mínútna kafla breytti Afturelding stöðunni úr 6 - 6 í 15 - 7.

Haukar náðu þó að klóra í bakkann með því að skora tvö síðustu mörk fyrri hálfleiksins en munurinn í hálfleik var 6 mörk, 15 - 9.

Mosfellingar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og spiluðu í raun miklu heilsteyptari leik heldur en í fyrri hálfleik þar sem sóknarleikurinn gekk smurt ásamt því að liðið spilaði vörnina vel. Annað var hins vegar uppi á teningnum hjá gestunum úr Hafnarfirði en það var alveg sama hvort um var að ræða, vörn, sókn eða markvörslu, það hreinlega gekk nánast ekki neitt hjá liðinu. Svo fór að lokum að Afturelding fór með afar sannfærandi 9 marka sigur af hólmi. Lokatölur 31-22 fyrir Aftureldingu sem heldur sér á lífi í toppbaráttunni með sigrinum en liðið er nú aðeins einu stigi á eftir Val og Haukum sem sitja á toppi deildarinnar.

Atvik leiksins

Þráinn Orri Jónsson skoraði mark af línunni eftir mikil slagsmál sem enduðu með því að honum tókst að rífa sig lausan rétt áður en búið var í orðsins fyllstu merkingu að klæða hann úr treyjunni. Hann var kominn úr annarri erminni og í raun ótrúlegt að sjá hann skora nánast ber að ofan. Eitt af því fáa jákvæða sem hægt er að tína úr leik Hauka.

Stjörnur og skúrkar

Einar Baldvin var eins og áður segir frábær í marki heimamanna en hann var stórkostlegur í dag og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Mosfellingar eru að búa til ótrúlega sterkt markvarðapar því Sigurjón Bragi Atlason hefur sömuleiðis verið frábær fyrir Aftureldingu það sem af er vetri, greinilega að Hreiðar Levý, markvarðarþjálfari Aftureldingar, veit sitthvað um hvernig á að verja bolta. Einar Baldvin varði 16 skot í kvöld, þar af 11 í fyrri hálfleik. Sigurjón Bragi Atlason kom inn á undir lok leiksins og varði eitt vítakast. Oscar Sven Leithoff Lykke var atkvæðamestur fyrir Aftureldingu en sá sænski skoraði níu mörk og þá gerði Ihor Kopyshynskyi átta.

Ég gæti nefnt ansi marga í liði Hauka sem áttu slæman dag en Aron Rafn Eðvarðsson náði sér engan veginn á strik í marki Hauka og varði aðeins fjögur skot þrátt fyrir að spila mest allan leikinn.

Dómarinn

Þeir Sigurður Hjörtur Þrastarson og Þorleifur Árni Björnsson héldu um flautuna í dag og stóðu sig með stakri prýði.

Stemning og umgjörð

Þetta var toppslagur í deildinni og að mínu mati mætti mætingin vera betri. Ég veit ekki hvort það sé svona langt frá Ásvöllum í Mosfellsbæinn en ég sá ekki marga stuðningsmenn þeirra í stúkunni sem ég verð að segja að sé lélegt hjá toppliðinu. Það verður samt að gefa vallarþulinum hæstu einkunn fyrir sitt framlag en hann heldur betur öskraði sitt lið í gang. Ef að Einar hefði ekki verið svona hrikalega góður í markinu í dag þá held ég að vallarþulurinn ætti alveg tilkall í mann leiksins.

Stefán Árnason er þjálfari Aftureldingar.vísir/Viktor Freyr

Stefán: Strákarnir svöruðu heldur betur kallinu hér í kvöld

Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar var að vonum gríðarlega sáttur með sitt lið eftir frækinn níu marka sigur gegn Haukum nú í kvöld.

„Ég er gríðarlega ánægður og við erum á lífi í þessari toppbaráttu með þessum sigri. Við skulduðum sjálfum okkur og fólkinu okkar eftir síðasta leik og strákarnir svöruðu heldur betur kallinu hér í kvöld. Liðið sýndi þvílíkan vilja og áræðni. Svona erum við bestir og við erum alltaf að reyna að ítreka það að við þurfum að spila á ákveðinn hátt til að vera góðir og þá getum við unnið öll lið. Eins og við spiluðum í kvöld þá sýndum við hversu hrikalega gott handboltalið við erum.“

Stefán mætti sínum gamla læriföður í kvöld en Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, þjálfaði Aftureldingu í fyrra og hafði hann Stefán sér til aðstoðar. Spurður að því hvort sigurinn væri sætari í ljósi þess segir Stefán svo ekki vera. Hann og Gunnar séu miklir vinir og greinilegt að hann beri mikla virðingu fyrir honum.

„Alls ekki, það skiptir engu máli. Handboltinn er það lítill að maður er alltaf að spila á móti einhverjum sem maður þekkir eða hefur unnið með áður. Ég og Gunni unnum lengi saman, erum góðir vinir og erum enn í góðu sambandi. Hann er með frábært lið og það er mjög erfitt að undirbúa sig fyrir Hauka. Mínir menn mættu klárir og það sem þeir framkvæmdu á vellinum var gott enda áttum við lausnir við nánast öllu því sem þeir voru að gera.“

Einar Baldvin var stórkostlegur fyrir Aftureldingu í kvöld og þá hefur Sigurjón Bragi einnig vakið mikla athygli þegar hann hefur spilað fyrir liðið. Breiddin er góð hjá liðinu í þessari stöðu og þá hrósar Stefán Hreiðari Levý Guðmundssyni fyrir sitt framlag til liðsins sem markvarðaþjálfari.

„Við erum með frábært markvarðarpar. Hreiðar Levý hefur komið gríðarlega vel inn og er að vinna mjög vel með þá tvo. Hann hjálpar þeim mikið. Það vita allir hvað Einar Baldvin getur og eins og að hann spilaði í dag þá sýndi hann að hann er einn af albestu ef ekki sá besti markvörður deildarinnar. Sigurjón hefur klárlega stigið líka upp og þegar Einar Baldvin datt út þá sýndi hann okkur að hann getur klárlega verið byrjunarmaður í þessari deild. Breiddin hjá okkur er að aukast þarna eins og í fleiri stöðum hjá okkur. Með hverri vikunni sem líður þá vitum við að við erum með tvo markmenn þegar á þarf að halda og það þarf heldur betur að hafa breidd þar eins og annars staðar.“

Fyrir leikinn í kvöld hafði Afturelding átt tvær vonbrigða frammistöður þar sem liðið tapaði gegn Selfoss og gerði jafntefli á móti Þór frá Akureyri. Liðið svaraði kallinu í kvöld en Stefán segir þó að það næsta sé að koma mönnum niður og nýta þessa frammistöðu til góðs. Liðið þurfi að muna eftir gildunum sínum.

„Næsta verkefni er alltaf bara að koma mönnum niður á jörðina og við höfum gert það frábærlega í vetur. Viku eftir viku hefur okkur tekist að koma okkur aftur á núllpunkt. Nú förum við að undirbúa næsta leik og ná annan sigur. Við duttum aðeins út frá okkar gildum í síðustu tveimur leikjum þar sem að ákveðin einkenni sem við höfum mikið talað um voru ekki til staðar. Ég held að svona leikur gefi mönnum frekar kraft. Við vitum alveg hvað við getum og það býr hellingur í liðinu okkar. Þetta minnir okkur líka á það að við þurfum að hafa mjög mikið fyrir því til að verða góðir í handbolta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira