Körfubolti

Westbrook verður einn af kóngunum í NBA í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook spilaði Denver Nuggets á síðasta NBA-tímabili.
Russell Westbrook spilaði Denver Nuggets á síðasta NBA-tímabili. Getty/Justin Ford/

Russell Westbrook verður áfram í NBA-deildinni í körfubolta á komandi tímabili en hann hefur gert samning við Sacramento Kings.

Westbrook fékk meðal annars gott tilboð frá Kína en ákvað að verða áfram í NBA og spila sitt átjánda tímabil í deildinni. Þetta herma heimildarmenn Shams Charania yfirskúbbara hjá ESPN.

Westbrook og Kings höfðu verið í sambandi allt frá því að keppnistímabilinu lauk. Westbrook var þolinmóður en aðilar hafa nú komist að samkomulagi.

Westbrook lék með Denver Nuggets á síðasta tímabili þar sem hann var með 13,3 stig, 6,1 stoðsendingu, 4,9 fráköst og 1,4 stolna bolta að meðaltali í leik

Westbrook styrkir Sacramento-liðið í bakvarðastöðunum sem leikstjórnandi sem getur bæði verið í byrjunarliði og komið inn af bekknum. Kings gætu einnig nýtt krafta hans á bekknum, en liðið var í 28. sæti yfir stig frá varamönnum á leik og í 29. sæti yfir stoðsendingar frá varamönnum á leik á síðasta tímabili.

Westbrook, sem verður 37 ára í nóvember, hefur náð flestum þrennum í sögu NBA (203) og er annar tveggja leikmanna í sögu deildarinnar sem hefur skorað 25.000 stig, tekið 8.000 fráköst og gefið 8.000 stoðsendingar, ásamt LeBron James. Westbrook hefur skorað 26.205 stig á ferlinum og þarf 506 í viðbót til að fara fram úr Oscar Robertson sem stigahæsti leikstjórnandi í sögu NBA.

Westbrook er einnig í áttunda sæti yfir flestar stoðsendingar á ferlinum og þarf 75 stoðsendingar til að verða áttundi leikmaðurinn með tíu þúsund stoðsendingar á ferlinum í sögu deildarinnar.

Síðan hann yfirgaf Oklahoma City Thunder árið 2018-19 sem goðsögn hjá félaginu er Westbrook nú kominn til síns sjötta liðs en á síðustu árum hefur hann spilað með Houston Rockets, Washington Wizards, Los Angeles Lakers, LA Clippers og Denver Nuggets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×