Lífið

Elli Egils hannaði há­talara fyrir Bang & Olufsen

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kjartan, Elli og hátalarinn í bakgrunni.
Kjartan, Elli og hátalarinn í bakgrunni. Aðsend

Í kvöld fór fram frumsýningarboð á Vinnustofu Kjarval þar sem hulunni var svipt af samstarfi Bang & Olufsen og listamannsins Ella Egilsson Fox. Þar var kynn sérstök útgáfa af Beosound A9 hátalaranum með verki eftir Ella en aðeins voru framleidd 50 númeruð og árituð eintök.

Í ávarpi sínu í kvöld sagðist Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Ormsson, stoltur af samstarfi Ormsson og Bang&Oloufsen:

Hátalarinn sem Elli hannaði. Aðsend

„Elli byrjaði sem tónlistarmaður og hefur alltaf haft takt og hljóð í blóði sínu. Hann hefur sjálfur talað um hvernig tónlistin mótar litina og formin í málverkum hans. Þess vegna er þetta verkefni, þar sem myndlist og hágæða hljóð ásamt einstakri hönnun Bang & Olufsen mætast, eðlilegt næsta skref. Við erum afar stolt af samstarfi okkar á þessum merku tímamótum: 10 ár með B&O á Íslandi, 100 ár B&O á heimsvísu og 103 ár Ormsson,“ er haft eftir Kjartani í tilkynningu.

Selja málverkið

Á viðburðinum var jafnframt tilkynnt að málverkið, sem Elli málaði sérstaklega fyrir verkefnið, verði selt á uppboði á heimasíðu Ormsson í desember. Allur ágóði sölunnar rennur til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

Beosound A9 hátalarinn fer í sölu á vef Bang & Olufsen á miðnætti. Eins og kom fram að ofan eru aðeins 50 eintök í boði. Hátalarinn kostar 580 þúsund án hönnunar Ella. 

Í tilkynningu segir að viðburðurinn hafi einnig markað stór tímamót í sögu Ormsson sem fagni tíu árum sem umboðsaðili Bang & Olufsen á Íslandi auk þess sem Bang & Olufsen fagni hundrað ára afmæli sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.