Körfubolti

Álfta­nes mætir stórliði Benfica

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
David Okeke verður með Álftnesingum í Portúgal.
David Okeke verður með Álftnesingum í Portúgal. vísir/hulda margrét

Körfuknattleikslið Álftaness heldur á morgun til Lissabon í Portúgal og tekur þátt í alþjóðlegu körfuboltamóti. Mótið ber heitið Torneo Internacional Lisboa og fer fram 12.–14. september.

Alls taka fjögur lið þátt í mótinu - Benfica, Sporting frá Lissabon, breska liðið Surrey 89ers og Álftanes.

„Undanfarin tvö ár höfum við farið í frábærar ferðir til Króatíu á undirbúningstímabilinu. Við ákváðum að breyta til í ár og eftir að ég ráðfærði mig við samnemendur mína í alþjóðlegu þjálfaranámi settum við stefnuna á að fara til Portúgal,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga.

„Við komumst í tengsl við forráðamenn Benfica í þeim tilgangi að leika æfingaleik við þeirra frábæra lið. Upp úr þeim viðræðum fæddist sú hugmynd að við kæmum inn í þetta mót og vorum við ekki lengi að þiggja boðið,“ bætir Kjartan við.

Fyrirkomulagið er einfalt, undanúrslit eru á föstudeginum og á sunnudeginum er leikið um fyrsta og þriðja sætið. Það kom í hlut Álftnesinga að mæta Benfica í undanúrslitunum.

Álftanes tekur þátt í þessu skemmtilega móti.

Benfica hefur verið leiðandi afl í portúgölskum körfubolta. Alls hefur félagið unnið 31 meistaratitil (þar af fjögur síðastliðin tímabil) og 23 sinnum hefur félagið orðið bikarmeistari.

Liðið leikur í Meistaradeild Evrópu og hefur á að skipa fjölmörgum landsliðsmönnum. Þess má geta að einn af leiðtogum Benfica er Aaron Broussard sem varð Íslandsmeistari með Grindvíkingum 2013. Broussard er á leið inn í sitt fimmta tímabil með portúgalska stórveldinu, hefur alltaf endað uppi sem portúgalskur meistari og fengið fjölmargar viðurkenningar.

„Vissulega er þetta leikur á undirbúningstímabili en það verður mjög gaman að mæta Benfica. Það vill svo skemmtilega til að Klara Kristín, dóttir mín, leikur fyrir akademíu Benfica í Bandaríkjunum þannig að þetta hittir skemmtilega á,“ segir Kjartan kátur og bætir við að með í för verði stór hluti meistaraflokksráðs Álftnesinga.

„Þessi hópur er magnaður og hefur fylgt okkur til Króatíu og um allt Ísland. Í hópnum eru tveir sem bera miklar taugar til Benfica. Annar þeirra bjó um árabil í Benfica-hluta Lissabon og svo er annar sem skráði sig í helsta stuðningsmannaklúbb félagsins og hefur verið virkur þar í einhver ár.“

Álftanes mætir Benfica á föstudaginn klukkan 18.30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×