Skoðun

Í minningu körfuboltahetja

Snæbjörn Guðmundsson skrifar

Mohammad Sha’lan, einn fremsti körfuknattleiksmaður Palestínu, lést langt fyrir aldur fram þann 19. ágúst síðastliðinn. Hann fæddist 11. nóvember 1985 í Bureij-flóttamannabúðunum á Gaza og átti langan og afar farsælan feril með mörgum af sterkustu körfuknattleiksliðum Gazastrandarinnar. Hann lék einnig fyrir þjóð sína með landsliði Palestínu á fjölmörgum alþjóðamótum.

Átján ára gamall vann hann sinn fyrsta titil með Khidmat Al-Maghazi í ungliðadeild Gazastrandarinnar en margir titlar áttu eftir að bætast í safnið. Flesta þeirra sótti hann með heimaliði sínu Khidmat Al-Bureij, en með því tók hann einnig þátt í arabísku meistaradeildinni árið 2005, sem haldin var það ár í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Frá 2003 fram til 2023 lék hann auk al-Maghazi og al-Bureij með ýmsum öðrum liðum á Gazaströndinni, svo sem Khidmat Khan Younis og Khidmat Al-Shati.

Sha’lan var dáður af samlöndum sínum og fékk viðurnefnið „jarðskjálftinn“ fyrir harðsnúna frammistöðu sína á vellinum. Ferlinum lauk hins vegar þegar Ísraelar réðust á Gaza undir lok árs 2023.

Mohammad var aðeins fertugur þegar hann lést. Ísraelskur hermaður myrti hann utan við hjálparmiðstöð nærri borginni Khan Younis á Gazaströndinni, þar sem hann beið í röð eftir mat fyrir fjölskyldu sína og lyfjum fyrir Myriam dóttur sína, sem þjáist af nýrnabilun og alvarlegum sjúkdómum í blóðrásarkerfi.

Mohammad Sha’lan lætur eftir sig sex börn. Hann bætist í hóp hundruð íþróttamanna sem myrt hafa verið af Ísraelum í yfirstandandi þjóðarmorði þeirra á palestínsku þjóðinni.

Megi körfuboltaheimurinn minnast Mohammads Sha’lans nú í upphafi Evrópumóts karla í körfubolta, sem og um alla framtíð.

Höfundur er jarðfræðingur




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×