Sport

Eir Chang sjöunda á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eir Chang Hlésdóttir er Íslandsmethafi í 200 metra hlaupi.
Eir Chang Hlésdóttir er Íslandsmethafi í 200 metra hlaupi. Vísir/Bjarni

Eir Chang Hlésdóttir endaði í sjöunda sæti í úrslitum 200 metra hlaups í dag á Evrópumeistaramóti tuttugu ára og yngri í frjálsum íþróttum. Mótið er haldið í Tampere í Finnlandi.

Eir Chang kom í mark á 24,07 sekúndum í úrslitahlaupinu og var sex hundraðshlutum frá sjötta sætinu.

Eir var með fjórða besta tímann í undanúrslitunum en náði ekki alveg eins góðu hlaupi. Eir hljóp á 23,51 sekúndu fyrr í dag en Íslandsmet hennar er 23,44 sekúndur frá því í Evrópubikarnum í sumar.

Eir setti sér það markmið að komast í úrslit og náði því. Það gefur henni síðan vonandi mikla reynslu að hafa upplifað það að taka þátt í úrslitahlaupi á stórmóti.

Þjóðverjinn TJudith Bilepo Mokobe varð Evrópumeistari á 23,40 sekúndum, Lucy Tallon frá Bretlandi tók silfrið og Tékkinn Terezie Táborská fékk brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×