Upp­gjörið: Víkingur R. - Malisheva 8-0 | Víkingar gjör­sigruðu gestina

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
víkingur diego
vísir/Diego

Víkingur er kominn áfram í 2. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa gjörsigrað lið Malisheva frá Kósóvó 8-0 í Víkinni í kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 0-1 sigri Víkings en yfirburðir þeirra voru algjörir í kvöld og staðan orðin 5-0 í hálfleik.

Víkingur byrjaði leikinn af krafti og voru búnir að skora fyrsta mark leiksins strax á 10. mínútu þegar Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir eftir góðan undirbúning frá Daníel Hafsteinssyni.

Nikolaj Hansen var aftur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar þegar hann skallaði aukaspyrnu Daníels Hafsteinssonar í netið og tvöfaldaði forystu Víkinga.

Yfirburðir Víkinga voru algjörir en þrátt fyrir það ákváðu gestirnir að gefa þeim eitt mark þegar Oliver Ekroth átti heldur laust skot í átt að marki sem Ilir Avdyli markvörður Malisheva missti inn.

Nikolaj Hansen fullkomnaði þrennu sína á 36. mínútu leiksins þegar hann skilaði fyrirgjöf frá Erlingi Agnarssyni í netið. Fengu keimlíkt færi stuttu áður sem markvörður Malisheva varði en Víkingar reyndu þá bara aftur og það gekk í það skiptið.

Daníel Hafsteinsson var næstur í röðinni fyrir hlé og skoraði fimmta mark Víkinga. Erlingur Agnarsson átti fyrirgjöf fyrir markið sem féll svo fyrir fætur Daníels sem þrumaði boltanum í þaknetið og Víkingar leiddu með fimm mörkum gegn engu í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór heldur rólega af stað enda einvígið löngu búið. Liðin voru í hálfgerðri sjálfsstýringu.

Víkingar bættu þó við mörkum og Valdimar Þór Ingimundarson bætti við sjötta marki leiksins þegar boltanum var spyrnt í Svein Gísla Þorkelsson og aftur fyrir vörn gestana þar sem Valdimar Þór var mættur einn í gegn og kláraði færið vel.

Ástandið batnaði ekki fyrir gestina á 72. mínútu þegar Agon Xhaka ákvað að verja skot frá Sveini Gísla á marklínu með hendinni. Vítaspyrna og rautt spjald dæmt. Atli Þór Jónasson fór á punktinn og skoraði af öryggi sjöunda mark Víkinga.

Áttunda mark Víkinga kom á 82. mínútu leiksins þegar Pablo Punyed renndi boltanum í hlaup fyrir Svein Gísla Þorkelsson og hann átti frábæra afgreiðslu utanfótar framhjá Ilir Avdyli í marki gestana.

Fleiri urðu mörkin ekki og fóru Víkingar með sögulegan 8-0 stórsigur af hólmi. 

Atvik leiksins

Gestirnir sáu aldrei til sólar og það sem súmmerar þennan leik kannski helst upp fyrir þá er þriðja markið í leiknum. Auðvelt skot á mark sem þeir missa inn.

Stjörnur og skúrkar

Nikolaj Hansen var með þrennu í kvöld. Daníel Hafsteinsson skoraði eitt og lagði upp tvö, Erlingur Agnarsson lagði líka upp tvö. Víkingar í heild voru bara frábærir í kvöld. Allir með tölu

Hausinn var heldur fljótur að fara hjá gestunum. 

Dómararnir

Dómarateymið komið frá Litháen og er ekkert út á þeirra frammistöðu að setja. Komust vel frá sínu.

Stemingin og umgjörð

Það var stuð og stemning í Víkinni. Evrópukvöld í Víkinni svíkur engann. Það var sungið og trallað enda full ástæða til.

Viðtöl

Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga.EPA-EFE/GEORGIA PANAGOPOULOU

„Hrikaleg sáttur með hvernig leikmennirnir spiluðu leikinn í gegn“

„Við ætluðum að ná stjórn á leiknum og tengja saman hálfleikana núna. Fyrir einvígið þá misstum við svolítið stjórnina en bara hrikaleg sáttur með hvernig leikmennirnir spiluðu leikinn í gegn“ sagði Sölvi Geir Ottesen eðlilega gríðarlega sáttur með sína menn.

„Það er auðvelt þegar þú ert kominn í 5-0 forystu að detta í einhvern svona djók fótbolta og fara að flækja hlutina og leika sér eitthvað en þeir héldu aga og héldu áfram að spila boltann sem að við viljum spila og uppskárum bara mjög flottan sigur“

Sölvi vildi ekki meina að honum hafi fundist þetta endilega komið þrátt fyrir að útlitið hafi snemma orðið bjart. Hann hrósaði sínu liði fyrir að halda orkunni og einbeitingu.

„Ég sá orkuna og einbeitinguna sem að strákarnir voru með. Ég var mjög sáttur með þá“

„Auðvitað fer maður ekkert að spá í hvort að þetta sé komið snemma í leiknum í 2-0 stöðunni en ég er bara hrikalega sáttur með hvernig þeir spiluðu í gegnum allan leikinn“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira