Innlent

Gjörunnin mat­væli tæpur helmingur af orkuinntöku lands­manna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Steina Gunnarsdóttir er doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands.
Steina Gunnarsdóttir er doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Vísir/Bjarni

Tæplega helmingur allrar orkuinntöku fullorðinna Íslendinga kemur frá gjörunnum matvælum (e. Ultra-processed food). Viðamiklar rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli neyslu á slíkri fæðu við ýmsa langvinna sjúkdóma á borð við sykursýki 2 og hjarta - og æðasjúkdóma.

Steina Gunnarsdóttir doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við HÍ fjallaði um rannsókn sína á neyslu landsmanna á gjörunnum matvælum á málþingi Matís í dag. Gjörunnin matvara hefur jafnan undirgengist þónokkra vinnsluferla. Innihaldslýsingin er löng og þá er slík fæða jafnan orkuþétt, næringarsnauð, inniheldur oft viðbættan sykur, mikið salt og gæði fitunnar er lakara. Steina notaði gögn úr Landskönnun á mataræði Íslendinga til að kortleggja neyslu á gjörunnum matvælum.

„Þá erum við að sjá að það er tæplega helmingur orkuinntökunnar, 45% hennar kemur frá gjörunnum matvælum og við erum að sjá að hópurinn sem borðar mest af þeim vantar mikilvæga fæðuhópa,“ segir Steina.

Hlutfallið er til samanburðar um 20 % á Ítalíu og 80% í Bandaríkjunum. Steina segir nauðsynlegt að forðast slík matvæli eins og heitan eldinn, betra sé að auka vægi heilnæmrar fæðu.

„Það eru ekki vísbendingar um að við eigum að forðast þær alfarið en það eru þó vísbendingar um tengsl við ákveðna langvinna sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma eða sykursýki 2 og svo framvegis.“

Steina skipti úrtakinu upp í fjóra jafn stóra hópa eftir hlutfalli gjörunninnar fæðu. Hlutfallið nam tuttugu og fjórum prósentum hjá þeim fjórðungi sem minnst neytti af gjöruninni fæðu á meðan hlutfallið nam sextíu og þremur prósentum hjá þeim sem mest neytti slíkrar fæðu. Steina bar þessa tvo hópa saman.

„Við sjáum að þau eru með aukna orkuinntöku og eru að borða meira af viðbættum sykri en vantar einnig þessa mikilvægu fæðuhópa eins og ávexti og grænmeti, heilkorn, fisk, hnetur og fræ.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×