Skoðun

Fyrir­sjáan­leiki fyrir ferða­þjónustuna

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Ég ólst upp við það að ferðamenn fóru bara í aðra áttina, frá Íslandi og út í heim. Á sandölum og ermalausum bol. Þetta var þegar bara fáeinir frumkvöðlar sá fyrir sér að ferðaþjónusta myndi vaxa og dafna sem alvöru atvinnugrein hér á landi. Ég ætla að fullyrða að enn færri, ef einhverjir, hafi séð fyrir sér að ferðaþjónustan væri nú orðin okkar stærsta og mikilvægasta atvinnugrein.

Hvað geta stjórnvöld gert fyrir atvinnugrein sem á síðasta ári aflaði 600 milljarða kr. í útflutningstekjur? Fyrir atvinnugrein sem skilaði um 160 milljörðum kr. í ríkisjóð í formi skatttekna? Hvernig tryggjum við framgang atvinnugreinar þar sem starfa rúmlega 30 þúsund manns?

Skilaboðin frá forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar eru í raun einföld, það þarf að leggja lykil áherslu á að skapa atvinnugreininni fyrirsjáanleika. Slíkur fyrirsjáanleiki þegar kemur að sköttum og gjöldum er alltaf æskilegur en í atvinnugrein þar sem salan á sér stað með 18-24 mánaða fyrirvara er hann beinlínis nauðsynlegur til þess að ógna ekki mikilvægum stöðugleika í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja.

Ekki byrja aftur frá núlli

Stjórnmálamenn þurfa líka að geta gert greinarmun á gjaldtöku sem ætlað er að stýra aðgengi að ákveðnum fjölsóttum og/eða viðkvæmum áfangastöðum og gjaldtöku sem er eingöngu ætlað að skapa tekjur fyrir ríkissjóð. Af þessu tilefni er bent á að mikil vinna hefur farið fram undanfarin ár í opinberri stefnumörkun í ferðaþjónustu í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þeirri vinnu má ekki að kasta á glæ þegar ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum nú eftir kosningar. Slík nálgun hjálpar ekki vaxandi atvinnugrein í krefjandi alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×