Körfubolti

Coach K að­stoðar Lakers í þjálfaraleit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mike Krzyzewski þjálfaði alla tíð í háskólaboltanum en var sterklega orðaður við LA Lakers árið 2004 þegar Phil Jackson hætti með liðið.
Mike Krzyzewski þjálfaði alla tíð í háskólaboltanum en var sterklega orðaður við LA Lakers árið 2004 þegar Phil Jackson hætti með liðið. Grant Halverson/Getty Images for SiriusXM

Mike Krzyzewski, betur þekktur sem Coach K, aðstoðar Los Angeles Lakers í leit sinni að nýjum aðalþjálfara. 

Darvin Ham þjálfaði LA Lakers í vetur en var látinn fara eftir 4-1 tap gegn Denver Nuggets í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar. 

Coach K starfaði hjá Duke háskólanum frá 1980–2021. Hann hefur átt gott samband við LA Lakers og Buss fjölskylduna sem á félagið í gegnum tíðina. 

Þá var hann einnig þjálfari bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikunum 2008, 2012 og 2016 og þjálfaði meðal annars stórstjörnur LA Lakers, þá Lebron James og Anthony Davis. 

Þrír sem koma helst til greina

The Athletic greinir frá því að þriggja hesta kapphlaup sé um stöðu aðalþjálfara LA Lakers. Þeir þrír sem helst koma til greina eru James Borrego, Sam Cassell og JJ Redick. 

James Borrego er aðeins 46 ára en hefur þjálfað í rúm tuttugu ár, helst sem aðstoðarþjálfari en hann var aðalþjálfari Charlotte Hornets frá 2018–22. 

Sam Cassell átti langan feril sem leikmaður í NBA deildinni en lagði skóna á hilluna 2009 og hefur starfað sem aðstoðarþjálfari nokkurra NBA liða síðan, nú hjá Boston Celtics. 

JJ Redick er væntanlega sá sem Coach K þekkir best og hefur sýnt mestan áhuga. JJ Redick var fjögur ár í Duke háskólanum hjá Coach K og útskrifaðist sem einn besti leikmaður í sögu liðsins áður en hann færði sig yfir í NBA deildina og lék í fimmtán ár við góðan orðstír. 

Síðan hann lagði skóna á hilluna hefur JJ Redick haldið úti hlaðvarpi um NBA deildina, nýlega hefur gagnrýni hans þar mikið beinst að þjálfurum deildarinnar, sem ætti að gefa góða hugmynd um hvar framtíðaráform hans og áhugi liggja. 

NBA

Tengdar fréttir

Hvað var LeBron að gera í Cle­veland?

LeBron James, stórstjarna Los Angeles Lakers, var staddur í heimaborg sinni Cleveland nýverið þar sem Cleveland Cavaliers mættu Boston Celtics í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Það vakti athygli þar sem LeBron gæti fengið sig lausan frá Lakers í sumar.

Lakers lætur Ham lík­lega fara

Það virðist sem Los Angeles Lakers mæti til leiks með nýjan þjálfara þegar næsta tímabil í NBA-deildinni í körfubolta hefst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×