Körfubolti

„Sem betur fer var leikurinn bara 40 mínútur í dag“

Siggeir Ævarsson skrifar
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, fer yfir málin með sínum konum
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, fer yfir málin með sínum konum Vísir/Pawel

Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, var ekkert sérlega upplitsdjarfur eftir leik þrátt fyrir að landa 80-78 sigri gegn Stjörnunni. Eftir að hafa náð upp 18 stiga forskoti gekk lítið upp hjá hans konum á lokakaflanum.

Ingvar samsinnti því að leikurinn hefði orðið óþægilega tæpur á lokasprettinum.

„Algjörlega. Þær klára leikinn á 21-5 áhlaupi. „Sem betur fer var leikurinn bara 40 mínútur í dag!“

Ingvar vildi ekki endilega meina að vörn Stjörnunnar hefði gert Haukum erfitt fyrir í sókninni. Skotin hafi einfaldlega hætt að detta og þá kallaði hann eftir betri ákvörðunum frá sínum konum.

„Örugglega hefur vörnin þeirra eitthvað með þetta að gera. Mér fannst við vera að fá ágætis skot á köflum. Galopin skot sem við vorum ekki að setja niður. Við vorum líka bara með rosalega mikið af skrítnum og slökum ákvörðunum sóknarlega. Við þurfum að skoða það og gera betur í næsta leik. Við sleppum ekki með þetta inni í Ásgarði.“

Þessi sigur var kannski ekki mest sannfærandi heimavallarvörn sem sögur fara af en Ingvar vildi þó ekki lesa of mikið í lokatölurnar.

„Á endanum snýst þetta um að ná í sigra. Þegar það er talið upp í lokin skiptir ekki máli hvort það var svona sigur eða stórsigur. Við tökum þennan sigur en þurfum klárlega að halda áfram að bæta okkar leik og gera betur í næsta leik.“

Liðin mætast á ný í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ á sunnudaginn og hefst sá leikur kl. 15:00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×