Körfubolti

LeBron sagði hælbítum Clarks til syndana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caitlin Clark skoraði þrjátíu stig í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans.
Caitlin Clark skoraði þrjátíu stig í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans. getty/Thien-An Truong

Körfuboltakonan frábæra, Caitlin Clark, fékk hrós úr ýmsum áttum fyrir frammistöðu sína í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans, meðal annars frá LeBron James.

Clark setti met þegar hún skoraði átján stig í 1. leikhluta í úrslitaleiknum í gær þar sem Iowa Hawkeyes tapaði fyrir South Carolina Gamecocks. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri stig í einum leikhluta í úrslitaleik bandaríska háskólakörfuboltans.

Þessi frábæra byrjun Clarks vakti eðlilega mikla athygli og fólk var duglegt að tjá sig um hana á samfélagsmiðlum. Þar á meðal var sjálfur LeBron. Hann sagði einfaldlega að ef hrifist ekki af Clark værirðu hælbítur. LeBron bað hana svo að halda sig fjarri svoleiðis fólki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem LeBron hrósar Clark en í síðustu viku kallaði hann hana íkon sem hafi gert ofboðslega mikið fyrir kvennakörfuboltann.

Clark er stigahæsti leikmaður í sögu bandaríska háskólakörfuboltans. Hún leiddi Iowa til tveggja úrslitaleikja í röð. Liðið tapaði þeim hins vegar báðum fyrir South Carolina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×