Körfubolti

Martin öflugur í naumu tapi gegn Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin var frábær í kvöld.
Martin var frábær í kvöld. Alba Berlín

Alba Berlín tapaði með sjö stiga mun fyrir Real Madríd í Evrópudeild karla í körfubolta, EuroLeague. Martin Hermannsson átti virkilega flottan leik í liði Berlínar en það dugði ekki til.

Martin missti af leik Alba Berlínar í Evrópudeildinni nýverið þar sem hann var á fæðingardeildinni. Eignaðist Anna María Bjarnadóttir þeirra annað barn nýverið en fyrri áttu þau soninn Manúel.

Íslenski landsliðsmaðurinn var hins vegar mættur til leiks í kvöld og byrjaði heimaliðið frábærlega. Berlínarmenn leiddu með tíu stiga mun að loknum fyrsta leikhluta. Eftir það tók stórlið Real Madríd hins vegar við keflinu og minnkaði muninn niður í fjögur stig fyrir lok fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var æsispennandi og staðan jöfn 77-77 þegar rétt tæplega tvær mínútur voru til leiksloka. Real reyndist hins vegar sterkari aðilinn á lokakaflanum og vann sjö stiga sigur, lokatölur 79-86.

Martin skoraði 13 stig, gaf fimm stoðsendingar og tók eitt frákast. Enginn í liði Alba Berlínar gaf fleiri stoðsendingar. Eina af stoðsendingunum má sjá hér að neðan. Mario Hezonja bar af hjá Real Madríd með 22 stig ásamt því að taka átta fráköst.

Real Madríd er á toppi Evrópudeildarinnar með 23 sigra í 29 leikjum. Alba Berlín er á botni deildarinnar, í 18. sæti, með 5 sigra í 29 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×