Körfubolti

Tók meira en tuttugu mínútur að spila síðustu tvær mínútur leiksins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ben Affleck og Jennifer Lopez létu sér leiðast í rúmar tuttugu mínútur meðan leikurinn tafðist
Ben Affleck og Jennifer Lopez létu sér leiðast í rúmar tuttugu mínútur meðan leikurinn tafðist Kevork Djansezian/Getty Images)

Vegna ítrekaðra endurskoðana dómara og bilana í skotklukku tók meira en tuttugu mínútur að spila síðustu tvær mínútur leiksins þegar Golden State Warriors unnu 128-121 gegn Los Angeles Lakers í nótt. 

Tafirnir hófust þegar 1 mínúta og 50 sekúndur voru eftir af fjórða leikhluta, Warriors þá yfir 124-120. Darvin Ham, þjálfari Lakers, andmælti ákvörðun dómara að láta Warriors fá innkast eftir að Jaxson Hayes og Andrew Wiggins börðust um boltann. 

Þegar það atvik var í skoðun tóku dómararnir eftir því að þriggja stiga skot Lebron James stuttu áður, þegar 2 mínútur og 7 sekúndur voru eftir, átti að vera dæmt ógilt. 

Lakers fengu því innkastið en misstu þrjú stig. Dómari leiksins útskýrði að vinstri fótur Lebron James hafi verið útaf vellinum þegar hann skaut úr horninu. 

Stuttu síðar vildi Lakers liðið meina að Draymond Green hafi skotið ólöglegum þrist fyrir Warriors. Darvin Ham andmælti aftur ákvörðun dómara og hafði rétt fyrir sér, Lakers fékk boltann. 

Þá gerðist það fjórum sinnum í röð að Lakers reyndu að spila boltanum inn en skotklukka leiksins var ekki að starfa sem skyldi. Áhorfendur voru orðnir ansi þreyttir á biðinni, bauluðu og mótmæltu hástöfum. 

Á endanum var gripið til þess ráðs að vallarþulur taldi niður skotklukkuna í hátalarakerfi svo leikurinn gæti haldið áfram. Þrátt fyrir langa bið voru Lakers ekki búnir að útfæra góða sókn, misstu boltann frá sér og Warriors tók forystuna 126-117 þegar 1 mínúta og 7 sekúndur voru eftir af leiknum. 

Þrátt fyrir tæknilega örðugleika tókst loks að klára leikinn eftir rúmlega tuttugu mínútna bið, lokatölur 128-121 sigur Warriors. 

Með þessum sigri skiptu Warriors og Lakers um deildarsæti, þeir núna í 9. sæti með 35 sigra og 31 tap og Lakers í 10. sæti Vestursins með 36 sigra og 32 töp. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×