Körfubolti

Tíma­bilið búið hjá Hilmari Smára en stórleikur hjá nafna hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson spilar ekki meira á leiktíðinni.
Hilmar Smári Henningsson spilar ekki meira á leiktíðinni. Vísir/Diego

Hilmar Smári Henningsson og lið hans Eisbären Bremerhaven fengu slæmar fréttir fyrir leik dagsins í þýsku b-deildinni því nú er ljóst að meiðsli íslenska landsliðsbakvarðarins eru alvarleg.

Hilmar Smári meiddist illa á hægri úlnlið á dögunum og nú er komið í ljós að sin í úlnliðnum er slitin. Hilmar verður því ekki meira með Bremerhaven á þessari leiktíð. Félagið segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Ekkert varð því að einvígi nafnanna og gömlu liðsfélaganna upp alla yngri flokka Hauka. Eisbären Bremerhaven spilaði nefnilega í dag við Hilmar Pétursson og félaga í Münster.

Hilmar Péturs var allt í öllu í liði Münster sen vann átta stiga sigur, 91-83. Hilmar skoraði 20 stig og gaf 4 stoðsendingar í leiknum. Hann hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sinum og 8 af 10 vítum. Tók ekki tveggja stiga skot í þessum leik.

Þetta er leiðinlegur endir á fyrsta tímabili Hilmars Smára í Þýskalandi en hann var búinn að standa sig mjög vel með 12,2 stig, 2,4 stoðsendingar og 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×