Körfubolti

Kominn með fleiri stig en Magic og Bird til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Magic Johnson og Larry Bird þegar Bird lagði skóna á hilluna á sínum tíma.
 Magic Johnson og Larry Bird þegar Bird lagði skóna á hilluna á sínum tíma. Getty/Tom Herde

Tveir af bestu NBA leikmönnum allra tíma ná ekki LeBron James þrátt fyrir að leggja stig sín saman.

Þegar LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA-deildinni í október 2003 þá voru enn fimm ár í Bankahrunið á Íslandi. Hann er enn að spila rúmu 21 ári síðar.

Á dögunum varð James sá fyrsti í sögunni til að skora fjörutíu þúsund stig í NBA-deildinni en hann hafði slegið stigamet Kareem Abdul-Jabbar í febrúar í fyrra.

LeBron hefur spilað 1.476 leiki í NBA-deildinni og skorað í þeim 27,1 stig að meðaltali í leik eða samtals 40.036 stig.

Hann er núna 39 ára gamall og er enn að skora 25,2 stig að meðaltali í leik eitthvað sem hann hefur gert að lágmarki öll tímabil sín í NBA fyrir utan nýliðatímabilið þegar hann var bara með 20,9 stig í leik.

Það sem setur þessa stigatölu hans kannski svolítið í samhengi og sýnir betur hversu fáránleg hún er ef við leggjum saman heildarstigatölu Magic Johnson og Larry Bird frá þeirra ferli þá væru þeir til samans með færri stig en James.

Til samans skoruðu þeir Magic og Bird 39.498 stig en þeir eru almennt taldir vera þeir tveir leikmenn sem björguðu NBA-deildinni á níunda áratugnum.

Magic skoraði 17.707 stig í 906 leikjum frá 1980 til 1996 eða 19,5 í leik.

Bird skoraði 21.791 stig í 897 leikjum frá 1980 til 1992 eða 24,3 stig í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×