Handbolti

Ómar Ingi sá um Gum­mers­bach | Stiven marka­hæstur hjá Benfica

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi var óstöðvandi í kvöld.
Ómar Ingi var óstöðvandi í kvöld. Vísir/Getty Images

Magdeburg vann Gummersbach með átta marka mun í uppgjöri Íslendingaliðanna í þýska handboltanum. Lokatölur kvöldsins 38-30 Magdeburg í vil. Þá var Stiven Tobar Valencia markahæstur í sigri Benfica.

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach hafa komið gríðarlega á óvart það sem af er leiktíð en því miður áttu þeir engin svör við frammistöðu Ómars Inga í kvöld. Á endanum vann Magdeburg átta marka sigur en án Ómars Inga hefði Gummersbach vel getað stolið sigrinum.

Ómar Ingi var markahæstur allra á vellinum með 12 mörk ásamt því að gefa 4 stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði 2 mörk og gaf 2 stoðsendingar og þá skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson einnig 2 mörk ásamt því að gefa staka stoðsendingu.

Hjá Gummersbach var Elliði Snær Viðarsson markahæstur með 8 mörk. Arnór Snær Óskarsson átti einnig fantaflottan leik en hann skoraði 5 mörk og gaf staka stoðsendingu.

Magdeburg er í 2. sæti með 38 stig, stigi á eftir toppliði Füchse Berlin. Gummersbach er í 7. sæti með 24 stig.

Sti­ven fór á kostum í öruggum sigri

Stiven Tobar Valencia átti líklega sinn besta leik í treyju Benfica þegar liðið vann gríðarlega öruggan tíu marka útisigur á Braga/Uminho í efstu deild handboltans í Portúgal.

Sigur gestanna í Benfica var aldrei í hættu en þegar flautað var til leiksloka var staðan 28-38. Stiven var markahæstur allra á vellinum með níu mörk.

Eftir sigurinn er Benfica í 2. sæti með 52 stig, fimm stigum á eftir nágrönnum sínum í Sporting sem á leik til góða. Orri Freyr Þorkelsson leikur með Sporting.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×