Skoðun

​​ ​​Kvikusöfnun sárs­aukans

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir skrifar

Í dag sá ég að kollegi minn á Instagram, skáldið og bókavörðurinn Mosab Abu-Toha, var að segja frá því að 150 manns sem hefðu verið að bíða komu nauðsynja; hveitis, vatns, lyfja o.s.frv. hefðu verið skotnir af Ísraelsher. Myrtir.

Af fréttavef RÚV:

“Ísraelskir hermenn skutu í morgun fólk sem þusti að vöruflutningabílum sem fluttu matvæli og aðrar nauðsynjar til fólks á Gaza.”

Þungvopnaðir hermenn á skriðdrekum skaut á mannþröng af sveltandi fólki, fólki sem er að reyna að næla sér í hveitipoka og nauðsynjar fyrir börnin sín. Þeir skutu á fólkið og myrtu rúmlega hundrað manns með köldu blóði, slösuðu og særðu enn fleiri sem eiga í erfiðleikum með að láta gera að sárum sínum því Ísraelsmenn hafa sprengt upp flesta ef ekki alla spítala á Gaza.

Það hefur lengi verið ljóst að markmið Ísraelsstjórnar er að eyða Palestínu. Þeir hafa í skjóli Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri vestrænna þjóða tekið land þeirra, skorið nauðþurftir við nögl og lokað þá af með múr. Palestínufólkið er fangar, það getur ekki um frjálst höfuð strokið.

Frá því í október hefur Ísrael notað þá fjarvistarsönnun að landið sé í sjálfsvörn. Ísraelsmenn segjast vera í sjálfsvörn gegn hernumdri þjóð. Það er eitthvað mjög bogið við þessi rök sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn tönglast á.

Hvernig getur vopnuðum hermönnum staðið ógn af sveltandi saklausum borgurum? Hvernig er hægt að stráfella börn, konur og menn af dæmalausri heiftúð og kalla það sjálfsvörn? Þetta er óskiljanlegt.

Stjórnmálafólk þessa lands og vestrænna ríkja á erfitt með að koma orðum að máttleysi sínu. Þetta er svo flókið segja þau og senda svo máttlausar yfirlýsingar um að þau krefjist vopnahlés vegna þessara stríðandi fylkinga. En þetta er ekki stríð!

Það eru Ísraelsmenn fá milljarða frá Biden forseta til þess að halda úti einum best búna her heims. Það eru Ísraelsmenn sem hindra bílalestir með hjálpargögn í því að komast inn á Gaza og svo skjóta þeir á fólkið þegar það er að sækja sér neyðaraðstoð. Síðast þegar bárust hjálpargögn til norður Gaza var 23. janúar síðastliðinn. Börn á Gaza eru nú að deyja úr hungri, vökvaskorti og veikindum. Það er hungursneyð á Gaza af mannavöldum, af völdum Ísraelsmanna, Bandaríkjanna, Bretlands, Evrópusambandsins og okkar Íslendinga.

Utanríkisráðherra ætlar svo að bíta höfuðið af skömminni með því að skera á líflínu Palestínubúa, Palestínu flóttamannahjálparinnar, UNWRA, stofnuð 1949 af Sameinuðu Þjóðunum, sem neyðarhjálp vegna Nakba þegar Ísraelsríki var stofnað í Palestínu. Vegna þess að átökin hófust ekki 7. október 2023. Þau hófust þegar jarðir, lönd, eignir, hús, götur, ólívutré og jarðaberjaakrar voru tekin af Palestínubúum. Þeir voru hraktir burt, drepnir og lokaðir inni í flóttamannabúðum. Palestínska þjóðin var gerð að flóttamönnum og föngum í eigin landi og það í nafni og krafti nýlenduveldanna, okkar vesturlandabúa.

Bráðabirgðarniðurstaða æðsta dómstóls á heimsvísu, Alþjóðadómstólsins í Haag, er að Ísraelsmenn séu að fremja þjóðarmorð. Þetta er kerfisbundið, útreiknað þjóðarmorð. Það á eyða menningu Palestínumanna og öllum ummerkjum um sögu þeirra í Palestínu. Það er verið að stunda ofsóknir á konum og börnum. Konur eru niðurlægðar og beittar kynferðislegu ofbeldi af ísraelskum hermönnum, blaðamenn hafa verið stráfelldir og alþjóðlegum fjölmiðlum og hjálparstofnunum er meinaður aðgangur að Gaza.

Hvers vegna? Svo að við getum ekki borið vitni? Svo að við getum ekki séð? Svo að við getum ekki komið þeim til hjálpar?

Tala myrtra, saklausra Palestínumanna er komin yfir 30.000 síðastliðna fimm mánuði þar af yfir 13.000 börn. Þrettán þúsund börn.

Ísraelsmenn eru þegar búnir að teikna og skipuleggja byggingar sem þeir ætla byggja á fjöldagröfum Palestínumanna á Gaza. Á Vesturbakkanum halda Ísraelsmenn uppteknum hætti hrekja fólk úr húsum sínum og eigna sér lönd þeirra.

Við horfum upp á þennan sársauka, dag eftir dag og eymdin bókstaflega smýgur inn í merg og bein. Helförin síðari. Sagan sem enginn vildi sjá endurtaka sig er að endurtaka sig og nú eru fórnarlömb þeirrar fyrri orðnir að slátrurum þeirra síðari.

Ég leyfi mér að birta með þessu máttlausa harmakveini mínu tvö ljóð, eitt þýtt ljóð eftir Mosab Abu-Toha og annað eftir mig sjálfa.

Eina stormasama nótt

til Mosab Abu-Toha

Ég hlusta á harmakvein kattarlúgunnar

vindurinn andar inn í húsið

ískrið skerandi

barnsgrátur á Gaza

undir hlýrri sæng

fyrir utan beljar stormurinn

eins og húsið sé að hrynja

horfi inn í myrkrið

kattarlúgan kveinar

eina stjörnulausa nótt

í aðdraganda jólanna

MHG

Eina stjörnulausa nótt

Á Stjörnulausri nótt,

Ég ligg og bylti mér.

Jörðin hristist, og

Ég dett úr rúminu. Húsið

við hliðina stendur

ekki lengur. Það liggur eins og gamalt teppi

Á jörðinni.

Niðurtraðkað af sprengjum, stórir inniskór

fljúga af lappalausum fótum.

Ég vissi ekki að nágrannarnir ættu enn þetta litla

sjónvarp,

að þetta gamla málverk héngi enn á veggnum þeirra,

að kötturinn þeirra hefði eignast kettlinga.

Mosab Abu-Toha

Þýðing úr Things you may find hidden in my ear: poems for Gaza. City Lights Books, San Francisco, 2022.

Höfundur er skáld og bókavörður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×