Körfubolti

Tryggði sigurinn með trylltri flautukörfu frá miðju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Strus horfir á eftir boltanum í lokaskoti leiksins en hann skoraði með skoti fyrir aftan miðju. Luka Doncic náði ekki að trufla hann mikið.
Max Strus horfir á eftir boltanum í lokaskoti leiksins en hann skoraði með skoti fyrir aftan miðju. Luka Doncic náði ekki að trufla hann mikið. AP/Sue Ogrocki

Max Strus skoraði ótrúlega sigurkörfu í nótt og kórónaði með því magnaða frammistöðu sína á lokamínútunum þegar Cleveland Cavaliers vann dramatískan 121-119 sigur á Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta.

P.J. Washington hafði komið Dallas einu stigi yfir í 119-118 þegar aðeins 2,9 sekúndur voru eftir af leiknum og Cleveland átti ekkert leikhlé eftir.

Max Strus fékk boltann úr innkastinu lék í átt að miðlínunni og lét vaða. Boltinn söng í netinu og leikmenn Cavaliers fögnuðu sigri með því að hrúgast á hann.

„Þegar allt kemur til alls þá erum við með gæja eins og Max Strus. Þá er allt mögulegt,“ sagði Jarrett Allen, miðherji Cavaliers.

Strus skoraði ekki aðeins þessa sigurkörfu því hann skoraði alls fimm þrista á síðustu fjórum mínútum leiksins og því hafa aðeins fjórir leikmenn náð á síðustu 25 tímabilunum í NBA.

Donovan Mitchell var samt stigahæstur hjá Clevaland með 31 stig en Strus skoraði 21 stig og Allen var með 19 stig. Luka Doncic var með 45 stig og 14 stoðsendingar fyrir Dallas en hann heldur upp á 25 ára afmælið sitt í dag.

„Þetta var ótrúlegt skot hjá honum. Algjörlega ótrúlegt skot. Þetta var samt mér að kenna. Ég hefði átt að setja meiri pressu á hann,“ sagði Luka Doncic.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×