Skoðun

Ekki fara í skatta­köttinn

Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir og Gunnlaug Ásgeirsdóttir skrifa

Í hvert sinn sem skil á skattframtali nálgast heyrast háværar raddir um aukið fjármálalæsi í íslensku menntakerfi, sérstaklega á framhaldsskólastigi. Algengt er á Íslandi að ungt fólk hefji sinn starfsferil um 16 ára aldur og gefur það því auga leið að þessi fræðsla á vel heima í menntaskólum. Einnig má nefna að seinustu ár hafa fleiri og fleiri kosið að starfa sem svokallaðir „giggarar“ og þar með fara í verktakavinnu. Það reynist þó erfiðara um vik ef skattframtalið stendur í vegi, það er, ef fólk kann ekki skil á því og borgar ýmist of mikið eða of lítið til skattsins. Margir mikla hlutina fyrir sér, kaupa jafnvel viðeigandi þjónustu eða fá vini/vandamenn til að vinna skattframtalið fyrir sig.

Þörfin á fræðslu um skattamál er brýn. Fjárhagslegt sjálfstæði og fjármálalæsi spilar stórt hlutverk í baráttunni um jafnrétti kynjanna og hafa ýmis félagasamtök og stofnanir veitt málaflokknum athygli upp á síðkastið með því að bjóða upp á fræðsluviðburði í tengslum við fjármál. UAK (Ungar athafnakonur) eru þar engin undantekning en félagið hefur verið í samstarfi við Kauphöllina seinustu ár og staðið fyrir ýmsum vel sóttum viðburðum með það að markmiði að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði kvenna.

Þótt víst sé að aðeins sé tvennt óumflýjanlegt í þessu lífi, dauðinn og skatturinn, er bjart framundan ef við sýnum ábyrgð, styðjum við fræðslu og eflum sjálfstæði einstaklinga. Það er einlægt markmið UAK að stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Af þeim sökum hvetjum við ungar konur til að ganga til liðs við okkur og þiggja fræðslu um skattamál í samstarfi við LOGN bókhald. Í þetta sinn segjum við því „ekki fara í skattaköttinn” en til er gamalt máltæki sem segir, „gefðu manni fisk, og þú fæðir hann í einn dag. Kenndu manni að veiða fisk, og þú hefur fætt hann fyrir lífstíð”.

Vinnustofa UAK „Ekki fara í skattaköttinn” verður haldin 26. febrúar nk. í húsi Samtaka atvinnulífsins.

Höfundar eru Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir og Gunnlaug Ásgeirsdóttir, stjórnarkonur UAK.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×