Körfubolti

„Eins og að sjá Jordan í kvennærfatnaði“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwayne Wade ræðir við áhorfendur þegar hann var heiðraður af Miami Heat. Hann mætti með naglalakk.
Dwayne Wade ræðir við áhorfendur þegar hann var heiðraður af Miami Heat. Hann mætti með naglalakk. Getty/Megan Briggs

Þekktir íþróttakarlar hafa kosið það að tjá sig á sérstakan hátt og kannski til að storka stöðnuðum hugmyndum um karlmennsku.

Dwyane Wade, fyrrum leikmaður Miami Heat í NBA-deildinni, vakti talsverða athygli á dögunum þegar hann var að halda upp á inntöku sína í heiðurshöll körfuboltans.

Wade mætti uppáklæddur og glæsilegur til hátíðarinnar en fólk rak strax augun í það að hann var með rautt áberandi naglalakk.

Íþróttakarlar hafa verið duglegir að fylla líkama sinn af húðflúrum í gegnum tíðina enda eitthvað sem hefur verið frá fyrstu tíð þótt tákn um karlmennsku.

Wade og fleiri eru óhræddir að storka þessum venjum og sækja í skraut sem hingað til hefur oftast þótt tilheyra kvenfólkinu.

Þetta vakti líka athygli blaðamannsins Andrew Lawrence á Guardian sem skrifar pistil um þessa nýju tísku hjá íþróttakörlum.

Wade fékk á sig harða gagnrýni fyrir skrautið sitt og þá einkum úr svokölluðum karlrembuhornum samfélagsmiðlanna. Það þótti ekki við hæfi að hann væri að tjá sig öðruvísi en hefð er fyrir í heimi karlaíþróttanna.

Í Youtube þættinum It Is What It Is gekk rapparinn Ma$e mjög langt í gagnrýni sinni. Hann sagði að sjá Wade með naglalakkið væri í sama flokki „eins og að sjá Jordan í kvennærfatnaði. Þetta er að ganga af mér dauðum,“ sagði Ma$e.

Wade er hættur að spila en einn mest spennandi ungi leikmaðurinn í ameríska fótboltanum, leikstjórnandinn Caleb Williams, fer sömu leið. Það er búist við því að hann verði valinn fyrstur í komandi nýliðavali og augun verða því á honum á næstu mánuðum.

Caleb málar neglur sínar á leikdegi en hann er með því að heiðra móður sína sem er naglafræðingur.

„Þú verður að halda höndunum ferskum. Það eru þær sem búa til allt gullið,“ sagði Caleb Williams aðspurður um þessa hefð sína.

Lawrence fer betur yfir málið í grein sinni sem má finna hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×