Körfubolti

Sat hjá eftir að hafa stigið á boltastrák

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Victor Wembanyama var valinn fyrstur í nýliðavali þessa árs og þykir mikið efni. Stór skrokkurinn gerir hann þó viðkvæman fyrir öllu hnjaski.
Victor Wembanyama var valinn fyrstur í nýliðavali þessa árs og þykir mikið efni. Stór skrokkurinn gerir hann þó viðkvæman fyrir öllu hnjaski. Aurelien Meunier/Getty Images

Einn besti nýliði NBA deildarinnar, Victor Wembanyama, sneri ökkla í upphitun fyrir leik gegn Dallas Mavericks í nótt þegar hann steig óvart á boltasæki liðsins. 

Atvikið átti sér stað rétt áður en leikur átti að hefjast. Wembanyama keyrði að körfunni framhjá einum aðstoðarþjálfara San Antonio Spurs, kom boltanum niður með laglegu sneiðskoti og steig svo á fót boltastráks sem stóð undir körfunni. 

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan, birtist færslan ekki er ráð að endurhlaða síðuna. 

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs, leit málið ekki alvarlegum augum í viðtali eftir leik. Hann sagði það varúðarráðstafanir að Wembanyama hafi ekki spilað, frekar en að hann væri of kvalinn til þess. 

San Antonio Spurs hefur ekki vegnað vel á tímabilinu og án Wembanyama áttu þeir ekki roð í Dallas Mavericks, lokaniðurstaða 119-144. Spurs sitja neðstir í vestrinu með 4 sigra og 24 töp, Dallas eru í 6. sætinu með 17 sigra og 12 töp eftir úrslit næturinnar. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×