Körfubolti

Tinda­stóls­maðurinn biður stuðnings­menn KB Peja af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jacob Calloway í leik með Val á sínum tíma. Hann er nú mættur á Sauðárkrók frá Kósóvó og hyggst hefja nýjan kafla á sínum ferli.
Jacob Calloway í leik með Val á sínum tíma. Hann er nú mættur á Sauðárkrók frá Kósóvó og hyggst hefja nýjan kafla á sínum ferli. Vísir/Bára Dröfn

Jacob Calloway segir að Tindastóll og KB Peja séu nálægt samkomulagi sem opnar dyrnar fyrir hann að spila loksins með Íslandsmeisturunum í Subway deildinni.

Það er langt síðan að Tindastóll tilkynnti það að Calloway væri nýr leikmaður liðsins en það hefur gengið illa að fá leikheimild vegna mótmæla frá hans fyrra félagi.

Calloway var með samning við lið KB Peja frá Kósóvó en hætti hjá félaginu og sakaði það um samningsbrot.

Forráðamenn KB Peja voru mjög ósáttir með þetta og hótuðu því að fara í hart og koma í veg fyrir að hann kæmist til Stólanna.

Nýjasta útspil Calloway er að biðja stuðningsmenn KB Peja afsökunar á samfélagsmiðlum.

„Kæru stuðningsmenn KB Peja. Ég vil biðjast afsökunar á því hvernig hlutirnir voru þegar ég yfirgaf félagið. Það var mín ákvörðun að hætta hjá félaginu,“ skrifaði Jacob Calloway á Instagram.

„Ég brást of hart við nokkrum hlutum sem voru í gangi og með því skildi ég þjálfara KB Peja og leikmenn liðsins eftir í erfiðri stöðu. Ég fékk slæm ráð frá fólki og vildi óska að ég hefði gert þetta öðruvísi,“ skrifaði Calloway.

„Ég vil ekkert nema hið besta fyrir félagið, þjálfarana, leikmennina og stuðningsmennina. Við erum nálægt því að ná samkomulagi. Þakkir til allra stuðningsmanna KB Peja fyrir stuðninginn og afsakið það hvernig ég hegðaði mér,“ skrifaði Calloway.

Yfirlýsingin frá Jacob Calloway.@jacobcalloway



Fleiri fréttir

Sjá meira


×