Handbolti

Úlfur dæmdur í þriggja leikja bann í annað sinn á rúmu ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úlfur Gunnar Kjartansson í leik Hauka og Fram þar sem hann fékk rauða spjaldið.
Úlfur Gunnar Kjartansson í leik Hauka og Fram þar sem hann fékk rauða spjaldið. vísir/hulda margrét

Úlfur Gunnar Kjartansson, leikmaður Hauka, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir brot í leik gegn Fram í Olís-deild karla í síðustu viku.

Úlfur fékk rauða spjaldið í leik Hauka og Fram á Ásvöllum síðasta fimmtudag fyrir að kýla Rúnar Kárason í bringuna. Haukar töpuðu leiknum með tíu marka mun, 23-33.

Aganefnd HSÍ tók málið fyrir og úrskurðaði Úlf í þriggja leikja bann. Haukum var gefið tækifæri á að senda inn greinargerð sem félagið gerði ekki.

Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem Úlfur er dæmdur í þriggja leikja bann fyrir gróf brot. Í október á síðasta ári fékk hann þriggja leikja bann fyrir að kýla Allan Norðberg í tvígang í leik KA og ÍR fyrir norðan.

Úlfur missir af síðustu tveimur leikjum Hauka á þessu ári og þeim fyrsta á næsta ári. Hann getur ekki spilað aftur með liðinu fyrr en gegn Víkingi 8. febrúar 2024.

Haukar hafa tapað fjórum leikjum í röð og eru í 6. sæti Olís-deildarinnar með tíu stig eftir ellefu leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×