Handbolti

Úlfur í þriggja leikja bann fyrir brotin á Allan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úlfur Gunnar Kjartansson brýtur á Allan Norðberg.
Úlfur Gunnar Kjartansson brýtur á Allan Norðberg.

Úlfur Gunnar Kjartansson, leikmaður ÍR, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir brot á Allan Norðberg í leik gegn KA í Olís-deildinni í handbolta í síðustu viku.

Úlfur kýldi Allan tvívegis í leiknum í KA-heimilinu á fimmtudaginn en slapp við refsingu frá dómurum leiksins. Framkvæmdastjóri HSÍ vísaði brotunum hins vegar til aganefndar á mánudaginn. Daginn eftir tók aganefndin málið fyrir en ákvað að gefa sér aukadag til þess.

Eftir að hafa kynnt sér upptökur og ljósmyndir af brotunum ákvað aganefndin að úrskurða Úlf í þriggja leikja bann. Að mati hennar var um að ræða brot sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

Úlfur getur því ekki leikið aftur með ÍR fyrr en 14. nóvember þegar liðið fær Aftureldingu í heimsókn. Úlfur missir af leikjum ÍR gegn Val, Selfossi og Stjörnunni.

Hörður Flóki Ólafsson, starfsmaður Þórs, var dæmdur í tveggja leikja bann vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik Þórs og ungmennaliðs Fram í Grill 66 deildinni í síðustu viku.

Úrskurð aganefndar HSÍ má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×