Handbolti

„Ég held það sé ekkert annað í boði“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Logi Pedro styður bæði lið í dag.
Logi Pedro styður bæði lið í dag. 66°Norður

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson mun styðja bæði Ísland og Angóla er löndin mætast á HM kvenna í handbolta í dag. Erfitt sé að velja á milli.

Móðir Loga er frá Angóla en faðir hans frá Íslandi. Honum þykir skemmtilegt þegar þjóðirnar tvær eigast við.

„Það er alltaf gaman þegar Ísland mætir Angóla. Ég held ég hafi tvisvar séð það gerast áður og ég á einhverjar treyjur. Ætli maður fari ekki í þær.“ segir Logi í samtali við Vísi. En hvort liðið mun hann styðja í dag?

„Þetta er spurningin. Ætli maður verði ekki báðu megin. Það er erfitt að vera eitthvað að gera upp á milli. Það er bara gaman að tvö lönd sem maður er með svona sterka tengingu við, sem eru nánast sitthvoru megin á hnettinum mætist í einhverju svona,“ segir Logi og bætir við:

„Ég held það sé ekkert annað í boði en að styðja bæði lið.“

Spáir stórmeistarajafntefli

Bróðir Loga, Unnsteinn Manúel Stefánsson, fór til Angóla árið 2020, rétt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Logi á eftir að koma til móðurlandsins og vill feta í fótspor bróður síns.

„Það fyndna er að maður hefur aldrei farið til Angóla og þetta er einhver ævintýraheimur fyrir manni.“ segir Logi Pedro sem setur stefnuna til landsins við fyrsta tækifæri. 

Hann er ekki frá því að lagið Mama Angola, sem fyrrum hljómsveit hans Retro Stefson, gaf út árið 2010, verði spilað fyrir leik í dag.

„Ætli maður rifji ekki upp gamla takta og spili það.“

Logi mun fylgjast vel með leiknum í dag og spáir jafntefli. „28-28!“.

Ísland mætir Angóla klukkan 17:00 í dag og verður leiknum lýst beint á Vísi. Landsliðinu er fylgt eftir hvert fótmál fram að leik og allar helstu fréttir af liðinu koma á Vísi um leið og þær berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×