Handbolti

„Losna aldrei við hann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lilja ásamt föður sínum og aðstoðarþjálfara landsliðsins, Ágústi Jóhannssyni.
Lilja ásamt föður sínum og aðstoðarþjálfara landsliðsins, Ágústi Jóhannssyni. Mynd/Úr einkasafni

Lilja Ágústsdóttir er yngsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins á HM í handbolta. Hún nýtur sín vel og býr að góðum stuðningi í teymi íslenska liðsins.

„Mér líður bara vel með þetta, þó þetta hafi verið erfitt og við að spila gegn rosalega góðu liði. Mér fannst við gera vel í seinni hálfleik og ég er ágætlega sátt með okkur.“ segir Lilja um það að fá að mæta Ólympíumeisturum Frakka í fyrradag. Liðið sé afar sterkt.

„Þetta er allt annað lið en lið sem við höfum verið að spila á móti. Mun hraðari og sterkari, fljótari á fótunum og mjög sterkt lið.“

Klippa: Ekki beint pabbi á svona stórmótum

Með stjörnurnar í augunum

Það sé þá ákveðin upplifun að deila hóteli með Frökkum en á hóteli íslenska liðsins gista hin þrjú liðin í riðlinum einnig; Frakkland, Slóvenía og Angóla.

„Mér fannst svolítið spes að hitta franska landsliðið á ganginum og maður var með stjörnurnar í augunum. Það er svolítið steikt,“ segir Lilja. Það hafi verið frábært að fá að máta sig við heimsklassa leikmenn Frakka í fyrradag.

„Þetta var ótrúlega gaman, þó þetta hafi verið erfiður leikur. Það að fá að spila á móti þeim er ógeðslega gott og gaman að sjá hvernig maður stendur sig á móti þessum stóru liðum.“

„Það var frábært að sjá alla þessa stuðningsmenn og maður fékk alveg gæsahúð eftir leik. Þetta var rosalegt,“ segir Lilja.

Ekki beint pabbi á svona mótum

Aðstoðarþjálfari íslenska liðsins er Ágúst Þór Jóhannsson, faðir Lilju. Hann þjálfar hana einnig hjá Val heima á Íslandi. Losnar hún aldrei við hann?

„Nei, ég losna aldrei við hann. En mér finnst það bara fínt. Það er gott að hafa pabba á bekknum. Hann er kannski ekki beint pabbi minn á svona mótum en mér finnst mjög fínt að hafa hann,“

Lilja ásamt foreldrum sínum, Ágústi og Sigríði.Mynd/Úr einkasafni

„Hann er bara þjálfari en er alltaf til í að hjálpa manni og kemur með góða punkta og svona,“ segir Lilja.

Í dag er úrslitaleikur við Angóla um það hvort liðanna kemst í milliriðil. Lilju líst vel á verkefnið.

„Mér líst bara vel á þetta. Við spiluðum á móti þeim á Posten Cup og fórum þar illa með færin. Mér finnst við eiga mjög mikinn séns á móti þeim og held við getum alveg unnið þær,“ segir Lilja.

Ísland mætir Angóla klukkan 17:00 í dag og verður leiknum lýst beint á Vísi. Landsliðinu er fylgt eftir hvert fótmál fram að leik og allar helstu fréttir af liðinu koma á Vísi um leið og þær berast.


Tengdar fréttir

Ásmundur lofaði Hasan Moustafa nýrri þjóðarhöll

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála á Íslandi, hitti Hasan Moustafa, alræmdan forseta Alþjóðahandboltasambandsins, IHF, oftar en einu sinni í Stafangri síðustu daga. Hann lofaði Egyptanum að Ísland myndi reisa nýja þjóðarhöll áður en kæmi að HM sem fer mögulega fram að hluta á Íslandi, árið 2029 eða 2031.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×