Körfubolti

Naumur sigur hjá Elvari og PAOK

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már með boltann í kvöld
Elvar Már með boltann í kvöld FIBA

Elvar Már Friðriksson og samherjar hans í gríska liðinu PAOK unnu góðan sigur á Benfica þegar liðin mættust í Meistaradeildinni í körfuknattleik í Grikklandi í kvöld.

Gestirnir frá Benfica byrjuðu betur og náðu ágætri forystu strax í fyrsta leikhluta. Þeir náðu meðal annars níu stiga forskoti í fyrri hálfleik en lið PAOK beit frá sér undir lokin og staðan í hálfleik var 39-37 Benfica í vil.

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi og heimamenn í PAOK leiddu að honum loknum 55-52 eftir að Elvar Már setti tvö stig og víti að auki á lokasekúndunum.

Lokafjórðungurinn var algjör naglbítur. Benfica jafnaði í 71-71 þegar rúm mínúta var eftir en heimamenn náðu 73-71 forystu með 47 sekúndur á klukkunni.

Lið Benfica missti í kjölfarið boltann eftir að hafa verið of lengi að taka boltann inn í innkasti. Þeir neyddust því til að brjóta á liðsmönnum PAOK sem komu muninum í fimm stig af vítalínunni.

Þriggja stiga karfa Benfica um leið og flautan gall skipti litlu og PAOK fangaði 76-74 sigri. Elvar Már Friðriksson lét fremur lítið fyrir sér fara í liði PAOK í kvöld. Hann lék í rúmar tuttugu mínútur og skoraði 3 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Eftir sigurinn er PAOK í efsta sæti riðilsins en lið Galatasaray og Hapeel frá Jerúsalem spila á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×