Körfubolti

„Þetta er keppni í að hitta ofan í körfuna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hjalti Þór Viljálmsson, þjálfari Vals, segir að sitt lið hafi einfaldlega tapað í keppninni um að hitta ofan í körfuna.
Hjalti Þór Viljálmsson, þjálfari Vals, segir að sitt lið hafi einfaldlega tapað í keppninni um að hitta ofan í körfuna. Vísir/Bára

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals í Subway-deild kvenna í körfubolta, var eðlilega súr eftir 22 stiga tap liðsins gegn Njarðvík á heimavelli í kvöld. Hann segist þó hafa séð ýmislegt jákvætt í leik síns liðs.

„Á köflum vorum við bara mjög góðar. Þær hittu náttúrulega bara eins og brjálæðingar og sérstaklega í fyrri hálfleik, aðallega Króatinn hjá þeim [Andela Strize]. Hún henti bara öllu ofan í og það var eiginlega bara munurinn á liðunum í hálfleik,“ sagði Hjalti í leikslok.

Valsliðið var hins vegar ekki jafn mikið í því að hitta í körfuna og liðið skoraði til að mynda aðeins sex stig í þriðja leikhluta.

„Ég meina við bara hittum ekki. Þetta er keppni í að hitta ofan í körfuna og við hittum ekki fyrir utan þriggja stiga línuna, né fyrir innan hana. Ég held að við séum með um 30 prósent nýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna og það er rosa erfitt að ætla að vinna einhverja leiki ef þú getur ekki hitt í körfuna.“

Þetta er annar leikurinn í röð sem Valskonur tapa með tuttugu stigum eða meira, en liðið mátti þola tuttugu stiga tap gegn Keflvíkingum síðastliðinn sunnudag, 70-50.

„Við erum að gera breytingar og það eru allskonar hræringar í liðinu. Við erum bara svolítið að finna taktinn aftur. Slæm eða góð töp, það er svo sem ekkert gott tap, ensama hvernig þessir tveir leikir hefðu farið þá þurfum við bara að finna taktinn og gleðina aftur og gera það saman.“

Hjalti nefndi einmitt breytingar á liðinu og vakti það athygli að búgarska landsliðskonan Karina Konstantinova, sem gekk í raðir Vals frá Keflavík fyrir tímabilið, var ekki í hóp hjá Val. Hjalti segir einfaldlega að hún hafi verið látin fara, án þess þó að fara dýpra í það.

„Já hún var rekin,“ sagði Hjalti að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×