Körfubolti

Snæ­­fell leiddar til slátrunar í Ljóna­­gryfjunni á meðan Fjölnir vann í Smáranum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fjölnir nældi í góðan sigur á meðan Snæfell tapaði stórt.
Fjölnir nældi í góðan sigur á meðan Snæfell tapaði stórt. Vísir/Vilhelm

Njarðvík vann stórsigur með stóru S-i á Snæfelli í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld, lokatölur 108-46. Þá vann Fjölnir tólf stiga sigur á Breiðabliki í Smáranum, lokatölur 86-98.

Í Njarðvík var aðeins eitt lið á vellinum en Shawnta Shaw lék ekki með gestinum í kvöld. Það munaði um minna. Heimakonur í Njarðvík komust í 16-0 og voru 23 stigum yfir þegar fyrsti leikhluti var búinn.

Sóknarleikur gestanna gekk mun betur í öðrum leikhluta e munurinn var enn 23 stig í hálfleik, 47-24. Njarðvík kom inn í síðari hálfleikinn líkt og það gerði í upphafi leiks og gekk gjörsamlega frá gestunum, þegar flautað var til leiksloka var staðan 108-46 eins og áður sagði.

Stigahæst í liði Njarðvíkur var Tynice Martin með 26 stig ásamt því að taka 8 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Alls skoruðu sex Njarðvíkingar tíu stig eða meira.

Njarðvík er komið með 12 stig í toppbaráttunni á meðan Snæfell er án stiga.

Í Smáranum unnu gestirnir úr Grafarvogi góðan sigur á lánlausu liði Breiðabliks, lokatölur 86-98. Korinne Campbell var frábær í liði Fjölnis, hún skoraði 27 stig og tók 13 fráköst. Hjá Blikum skoraði Brooklyn Pannell 33 stig og gaf sjö stoðsendngar.

Fjölnir er nú með sex stig í 8. sæti deildarinnar en Breiðablik er líkt og Snæfell án stiga, liðin mætast í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×