Körfubolti

Hamarsmenn semja við Jalen Moore og reka tvo leik­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jalen Moore í síðasta leik sínum með Haukum.
Jalen Moore í síðasta leik sínum með Haukum. Vísir/Anton Brink

Jalen Moore var fljótur að finna sér annað félag á Íslandi eftir að Haukarnir létu hann fara fyrr í vikunni.

Moore hefur samið við Hamar og spilar því áfram í Subway deild karla. Hamarsmenn gerðu fleiri breytingar því félagið hefur látið tvo erlenda leikmenn fara eða Bandaríkjamanninn Maurice Creek og Spánverjann Jose Medina.

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, staðfesti þessar breytingar á liðinu í samtali við íþróttadeild.

Moore er stigahæsti leikmaður Subway deildarinnar í vetur en hann skoraði 27,3 stig að meðaltali í sex leikjum með Haukum. Að auki var hann með flesta stolna bolta (3,33) og í þriðja sæti í stoðsendingum (8,1 í leik).

Hamarsmenn eru á botni Subway deildarinnar og hafa tapað öllum sex leikjum sínum. Creek var með 18,5 stig og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í leik en Medina var með 12,0 stig og 5,7 stoðsendingar í leik.

Medina var með Hamarsliðnu í fyrra þegar liðið fór upp en þá var hann með 28,9 stig og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í 1. deildinni. Hann spilaði nú í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni á Íslandi og náði ekki að skila því sama og undanfarin tímabil.

Moore spilaði á móti Hamarsliðinu fyrr í vetur og var þá með þrennu í sigri en í þeim leik var hann með 19 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst. Hamarsmenn vita því vel hvað hann getur.

Fyrsti leikur Hamarsmanna eftir þessar breytingar verður á móti Grindavík í Smáranum í Kópavogi á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×