Körfubolti

Mikil­vægur sigur hjá liði Elvars í Meistara­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar í baráttu við tvo leikmenn Hapoel í leiknum í kvöld.
Elvar í baráttu við tvo leikmenn Hapoel í leiknum í kvöld. Vefur FIBA

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í gríska liðinu PAOK unnu í kvöld góðan sigur á Hapoel Jerusalem þegar liðin mættust í Meistaradeildinni. 

Fyrir leikinn í dag var PAOK með einn sigur og eitt tap eftir fyrstu tvo leikina á meðan lið Hapoel Jerusalem hafði unnið sína fyrstu tvo leiki og var á toppi riðilsins.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum. Hapoel leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta en heimamenn í PAOK sneru dæminu við og leiddu í hálfleik. Staðan þá 39-35.

Í þriðja leikhluta náðu Elvar og félagar ágætu áhlaupi. Þeir náðu ellefu stiga forskoti fyrir fjórða leikhlutann og voru komnir með yfirhöndina. Í fjórða leikhluta söxuðu gestirnir frá Ísrael á forskotið og var staðan 75-73 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Spennan var því mikil undir lokin. Hapoel jafnaði metin en Kendall Smith leikmaður PAOK náði í þrjú víti í næstu sókn sem hann setti niður. Gestirnir minnkuðu muninn á ný og fengu síðan tækifæri til að tryggja sigurinn eftir misheppnaða tilraun Smith hinu megin.

Hapoel hélt í sókn með rúmar þrettán sekúndur á klukkunni. Þriggja stiga tilraun leikmanns liðsins fór forgörðum og heimamenn náðu frákastinu og tíminn rann sitt skeið. Smith setti niður eitt víti áður en flautan gall og PAOK vann að lokum 79-77 sigur.

Elvar Már skoraði 9 stig, tók 2 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×