Sport

Bald­vin setur stefnuna á Ólympíu­­leikana: „Væri al­gjör draumur“

Aron Guðmundsson skrifar
Það er auðvelt að halda með íþróttamanni á borð við Baldvin Þór Magnússon sem leggur allt í sölurnar til þess að ná langt á sínu sviði
Það er auðvelt að halda með íþróttamanni á borð við Baldvin Þór Magnússon sem leggur allt í sölurnar til þess að ná langt á sínu sviði Vísir/Einar

Ís­­lenski lang­hlauparinn Bald­vin Þór Magnús­­son hefur átt afar góðu gengi að fagna á árinu og sett fjögur ný Ís­lands­­met. Í 5000 metra hlaupi innan­­húss, í mílu innan­­húss, 1500 metra utan­­húss og 3000 metra hlaupi utan­­húss. Það er aðal­­­lega löngun Bald­vins í að bæta sig í sí­­fellu, fremur en löngun hans í Ís­lands­­met sem ýtir undir hans árangur upp á síð­kastið og hefur hann nú sett stefnuna á að upp­­­fylla draum sinn um að komast á Ólympíu­­leikana.

„Ég hef verið að gefa allt í þetta. Gefa allt í æfingarnar, gefa allt í keppnis­hlaupin. Fyrir mér er þetta bara það sem lífið snýst um þessa dagana og ég hef geta lagt mikla á­herslu á alla þætti sem við koma hlaupa­ferlinum,“ segir Bald­vin Þór í sam­tali við Vísi. „Ekki bara þáttunum er snúa að hlaupunum sjálfum, heldur einnig endur­heimtinni og með því að geta gert það hef ég náð að bæta mig mjög mikið.“

Og með því hefur þessi öflugi hlaupari sett hvert Ís­lands­metið á fætur öðru en það eru ekki Ís­lands­metin sem Bald­vin horfir helst til í þegar að hann metur árangur sinn í lang­hlaupunum.

„Mér finnst bara ó­trú­lega gaman að bæta mig. Maður finnur ekki betri til­finningu en þá sem maður finnur eftir hlaup þar sem að maður hefur bætt sig. Það er alltaf jafn gott að hlaupa vel, það breytist ekkert. 

Þetta snýst í raun og veru, að stórum hluta, bara um vilja minn til þess að bæta mig. Ég hef gefið allt í þetta, stundað lang­hlaupin af fullum krafti með það að leiðar­ljósi að vera alltaf að bæta mig.“

Tók miklum framförum í Bandaríkjunum

Undan­farin ár hefur Bald­vin geta sinnt hlaupa­ferlinum vel sam­hliða námi í í­þrótta­fræði við East Michigan há­skólann í Banda­ríkjunum þaðan sem hann út­skrifaðist fyrr á árinu.

„Tíminn í Banda­ríkjunum var alveg frá­bær fyrir mig. Þar gat ég lagt á­herslu á hlaupa­ferilinn líkt og um at­vinnu­mennsku væri að ræða. Ég bjó með öðrum hlaupurum og var með frá­bæra þjálfara. Þarna úti var ég náttúru­lega í námi og þurfti að stunda það einnig en að miklu leiti snerist mitt dag­lega líf um hlaupa­ferilinn.“

Tíminn í Bandaríkjunum reyndist Baldvini ansi góður

„Ég naut þess í botn þarna úti að geta æft við mjög góðar að­stæður með af­bragðs æfingar­fé­laga mér við hlið. Núna er maður kominn út úr há­skóla­um­hverfinu og hefur þurft að fóta sig á nýjan leik. Finna út hvar maður er staddur og hvernig maður vill haga hlutunum upp á fram­tíðina að gera.“

Krefjandi umhverfi atvinnumennskunnar

Bald­vin er nú bú­settur í Hull á Eng­landi þar sem að hann hefur það að at­vinnu að vera lang­hlaupari. Stein­snar frá Hull, nánar til­tekið í Leeds, hefur hann fundið sér æfingar­fé­laga og að­stöðu til að halda á­fram með sinn feril. Hann segir það krefjandi að hafa þurft að fóta sig á ný utan há­skóla­lífsins.

„Það var mjög erfitt fyrst. Þegar að ég var ekki búinn að finna út úr því hvar ég ætlaði mér að vera og hvað ég ætlaði mér að gera yfir höfuð. Há­skóla­lífið hafði verið mjög gott. Þar vissi maður upp á hár hvað maður ætti að gera. Fór í tíma á á­kveðnum stað, æfði á á­kveðnum stað en eftir há­skólann þurfti ég að finna mína eigin leið.

En ég er mjög sáttur með þær að­stæður sem ég finn mig í núna. Ég æfi með góðum æfingar­hópi í rúm­lega klukku­stunda fjar­lægð frá staðnum sem ég bý á. Ég næ að æfa á fullu og stunda þetta sem at­vinnu­maður. Þetta er það sem ég hef fyrir at­vinnu þrátt fyrir að vera kannski ekki á fullum at­vinnu­manna­launum. Ég lifi þó og æfi eins og at­vinnu­maður.“

Baldvin hefur verið fulltrúi Íslands á alþjóðlegum mótum

Það felur í sér að Bald­vin Þór æfir mikið. Hann hleypur á milli 150 – 160 kíló­metra á hverri viku og þegar að hann er ekki á hlaupa­æfingum taka styrktar æfingarnar við og endur­heimt.

„Þá er einnig mikil­vægt fyrir mig að komast að í svo­kölluðum há­fjalla æfingar­búðum til þess að ná að há­marka árangurinn.“

Ytri skil­yrðin á þessum at­vinnu­manna­ferli, peninga hliðin þar á meðal, er krefjandi.

„Það er auð­vitað krefjandi. Þetta er klár­lega krefjandi í­þrótt ef á þá hlið er litið. Það er ekki mikill peningur í boði í í­þróttinni og eitt­hvað sem maður þarf að vinna í. Vonandi verður hægt að bæta þar úr svo maður geti stundað þetta alveg að fullu.“

Með augun á París

Og mark­miðin á komandi tímum fyrir þennan frá­bæra hlaupara eru skýr:

„Mark­miðið er náttúru­lega bara að halda á­fram að bæta sig, bæta árangurinn. Það er gott tæki­færi fyrir mig að komast á Ólympíu­leikana á næsta ári og göfugt mark­mið að eiga. Ég þarf að eiga þrjú góð hlaup á næsta ári og ætla mér að hlaupa 3000 metra hlaup í febrúar eða mars og stefna svo á tvö góð 5000 metra hlaup yfir sumarið. 

Það ætti þá að vera nóg fyrir mig til þess að tryggja mér sæti á Ólympíu­leikunum. Það væri náttúru­leg al­gjör draumur að ná því og yrði einnig gaman fyrir Ís­lendinga að vera með kepp­endur í 5000 metra hlaupi á leikunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×