Körfubolti

Orri hafði hægt um sig í stór­sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri Gunnarsson í leik með Haukum á síðustu leiktíð.
Orri Gunnarsson í leik með Haukum á síðustu leiktíð. Vísir/Diego

Körfuknattleiksmaðurinn Orri Gunnarsson og liðsfélagar hans í austurríska liðinu Swans Gmunden unnu stórsigur á Flyers Wels í austurrísku deildinni í dag.

Orri gekk til liðs við Swans Gmunden í sumar eftir ársdvöl hjá Haukum en hann er uppalinn hjá Stjörnunni í Garðabæ. 

Lið Gmunden hefur byrjað tímabilið vel og var fyrir leikinn í dag með þrjá sigra eftir fyrstu fjórar umferðirnar og sat í öðru sæti austurrísku úrvalsdeildarinnar. Orri hefur verið að spila töluvert fyrir lið Gmunden eða rúmar 25 mínútur að meðaltali í leik.

Leikurinn í dag var nokkuð jafn í fyrri hálfleik og að honum loknum munaði sjö stigum, staðan þá 41-34 fyrir heimamenn í Swans Gmunden. Í síðari hálfleik skildu hins vegar leiðir. Gestunum tókst aðeins að skora fimm stig í þriðja leikhluta og sigur Gmunden nánast í höfn.

Í lokafjórðungnum var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Lokatölur urðu 81-61 og fagnaði lið Swans Gmunden því fjórða sigri sínum í fimm leikjum. Liðið situr í 2. - 4. sæti deildarinnar.

Orri Gunnarsson hafði fremur hægt um sig í leiknum í dag. Hann skoraði níu stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×