Skoðun

Þegar að Diljá Mist reyndi að réttlæta stríðsglæp

Ingólfur Shahin skrifar

Í grein sem birtist á Vísi þann 13. október reynir Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, að réttlæta alvarlegan stríðsglæp á Gasa.

Í þeirri grein telur Hallgerður Kolbrún Jónsdóttir, blaðamaður Vísis, minnst níu starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins sem hafa verið drepnir í árásum Ísraela á undanförnum dögum. Í kjölfarið spyr hún Diljá Mist:

Telur þú Ísraelsmenn fremja þarna stríðsglæpi?

Ólíkt því sem flestir Íslendingar myndu telja eðlilegt, svarar Diljá Mist því ekki játandi, heldur reynir hún þvert á móti að réttlæta aftökur á saklausu fólki og segir:

„Það er náttúrulega ömurlegt hvernig þessi hryðjuverkasamtök, eins og þekkt er, haga sér. Hvernig þau nota fólk, almenna borgara, sína eigin borgara og gísla eins og þau gera núna, sem mannlega skyldi. Það er þekkt aðferð hjá þeim hvernig þau koma sér fyrir í kjöllurum sjúkrahúsa og verjast þannig árásum. Það er auðvitað ömurlegt og þess vegna geri ég ráð fyrir að þessi tilskipun sé sett fram,“ svarar Diljá Mist.

Skoðum þessa röksemdafærslu aðeins nánar og ímyndum okkur þessar aðstæður, t.d. á Íslandi. Hryðjuverkamenn fremja hræðilegt ofbeldisverk og flýja í kjölfarið inn á heimili saklausra borgara. Þeir taka fjölskyldu í gíslingu, saklaust fólk, konur og börn. Myndi það þýða, samkvæmt þessum rökum, að öll fjölskyldan væri réttdræp í hefndaraðgerðum stjórnvalda? Auðvitað ekki.

Það er ekki hægt að réttlæta morð á saklausum borgurum bara vegna þess að hryðjuverkamenn hafa komið sér fyrir á milli þeirra. Það má því heldur ekki sprengja sjúkrahús bara vegna þess að hryðjuverkamenn hafa komið sér fyrir í kjallaranum.

Þrátt fyrir það reynir Diljá Mist að halda öðru fram, án þess að taka tillits til alþjóðalaga. Í 33. grein Genfarsáttmálans, sem Ísland er aðili að, kemur skýrt fram að ekki megi refsa saklausum borgurum fyrir glæpi sem þeir hafa ekki framið. Þar segir:

„Engum einstaklingi má refsa fyrir brot sem hann hefur ekki framið persónulega. Sameiginlegar refsingar og sömuleiðis allar ráðstafanir til hótunar eða hryðjuverka eru bannaðar. Rán er bannað. Hefndaraðgerðir gegn vernduðum einstaklingum og eignum þeirra eru bannaðar.“

Það er því nokkuð ljóst að árásir Ísraela á almenna borgara og heimili þeirra á Gasa er stríðsglæpur í orðsins fyllstu merkingu. Í ljósi alvarleika málsins, þar sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis reynir að réttlæta stríðsglæpi, væri eðlilegt að fara fram á að Diljá Mist Einarsdóttir segi af sér sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis og að nýr formaður, sem er betur að sér í alþjóðalögum, taki við.

Höfundur er frumkvöðull.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×