Körfubolti

Shaq verður forseti og Iverson varaforseti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal og Allen Iverson voru ekki aðeins frábærir körfuboltamenn heldur líka miklar týpur.
Shaquille O'Neal og Allen Iverson voru ekki aðeins frábærir körfuboltamenn heldur líka miklar týpur. Getty/Ezra Shaw

NBA-goðsagnirnar Shaquille O'Neal og Allen Iverson eru mættir aftur til körfuboltahluta Reebok íþróttaframleiðandans en nú sem hæstráðendur.

Báðir voru styrktir af Reebok þegar þeir voru tveir af bestu körfuboltamönnum sinnar kynslóðar en nú er búið að búa til nýjar stjórnarstöður fyrir þá.

Shaquille O'Neal verður forseti en Allen Iverson verður varaforseti.

O'Neal lék í NBA-deildinni frá 1992 til 2011, varð fjórum sinnum meistari og einu sinni kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar (2000). Shaq var með 23,7 stig, 10,9 fráköst og 2,3 varin skot að meðaltali í NBA.

Iverson lék í NBA-deildinni frá 1996 til 2011 og átti sitt besta ár þegar hann var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn 2001. Hann var með 26,7 stig og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í NBA.

Todd Krinsky, framkvæmdastjóri Reebok, byrjaði hjá fyrirtækinu árið 1992 eða sama ár og samningar náðust við O'Neal sem var þá nýliði hjá Orlando Magic. Hann lagði áherslu á að fá Shaq og Iverson aftur um borð.

Shaq mun einbeita sér að tengja saman menn í NBA-heiminum og hjálpa þeim leikmönnum sem eru á samningi hjá Reebok. Hann ætlar að nota sterk sambönd sín til að byggja brýr fyrir Reebok fyrirtækið. Shaq hefur eftir feril sinn byggt upp gríðarlega stórt viðskiptaveldi.

Iverson mun aftur á móti einbeita sér að framtíðarleikmönnum og sýnileika Reebok í grasrótinni. Iverson heldur meðal annars „Iverson Classic“ High School leik á hverju ári.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×