Körfubolti

Stólarnir fengu frá­bæran stuðning á úti­velli í Evrópu­sigrinum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Tindastóls hafa verið frábærir og sönnuðu það einu sinni sem oftar í Eistlandi.
Stuðningsmenn Tindastóls hafa verið frábærir og sönnuðu það einu sinni sem oftar í Eistlandi. Vísir/Hulda Margrét

Tindastóll varð í gær fyrsta íslenska körfuboltaliðið til þess að vinna Evrópuleik í sautján ár.

Íslandsmeistararnir mættu á heimavöll eistneska félagsins Pärnu Sadam og unnu að lokum 69-62 sigur.

Tindastólsliðið var níu stigum undir í hálfleik, 26-35, en átti frábæran seinni hálfleik sem liðið vann með sextán stigum, 43-27.

Það er enginn vafi að hvatning á áhorfendapöllunum hjálpaði liðinu mikið í þessum sögulega leik.

Stólarnir flugu til Eistlands með góðan hóp stuðningsmanna og fengu fyrir vikið frábæran stuðning á útivelli í Evrópusigrinum í gær.

Þeir sem fylgdust með leiknum hér heima í gegnum netið höfðu eflaust sérstaklega gaman af því í upphafi leiks þegar stuðningsmannahópur Stólanna kallaði „Velkomnir í Síkið“ í upphafi leiksins.

Þetta hefur verið venjan á Króknum þar sem heimamenn eru sérstaklega erfiðir viðureignar en þessi góði hópur stuðningsmanna sem ferðuðust alla leið til Eistalands ætluðu heldur betur að vinna stúkuna og gerðu það eins og strákarnir þeirra inn á vellinum

Hér fyrir neðan má sjá upphaf leiksins.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði fyrstu körfu Tindastóls í Evrópukeppni og endaði með fjórtán stig en Adomas Drungilas var stigahæstur með 18 stig.

Annars var það frábær vörn Stólanna sem gerði útslagið í þessum leik því þeir fengu aðeins 62 stig á sig, þvinguðu heimamenn til að tapa sextán boltum og héldu þeim í 41 prósent skotnýtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×