Körfubolti

Þjóðverjar unnu Bandaríkin og fara í úrslit í fyrsta sinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andreas Obst fór fyrir Þjóðverjum sem eru komnir í úrslit í fyrsta sinn.
Andreas Obst fór fyrir Þjóðverjum sem eru komnir í úrslit í fyrsta sinn. Getty

Þýskaland verður mótherji Serbíu í úrslitaleik heimsmeistaramóts karla í körfubolta á sunnudaginn kemur. Þeir þýsku unnu sterkt lið Bandaríkjanna í undanúrslitum í Manila í dag.

Leikur liðanna var afar fjörlegur og hittnin góð í fyrstu tveimur fjórðungunum. Staðan í hálfleik 60-59 fyrir Bandaríkin en aldrei hafa eins mörg stig verið skoruð í undanúrslitaleik á heimsmeistaramóti.

Þjóðverjar voru sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og leiddu með tíu stiga mun að honum loknum. Bandaríkin svöruðu fyrir sig í þeim fjórða og úr varð æsispennandi lokakafli. Þeir þýsku höfðu þar betur með tveggja stiga mun, 113-111, og munu þeir því mæta Serbum í úrslitaleik mótsins á sunnudag.

Um er að ræða sögulegan árangur hjá þeim þýsku sem hafa aldrei áður komist í úrslit HM en þeir hlutu brons árið 2002.

Andreas Obst, leikmaður Bayern Munchen, var stigahæstur á vellinum með 24 stig en honum skammt undan voru liðsfélagar hans í þýska liðinu, NBA-leikmennirnir Franz Wagner (Orlando Magic) með 22 stig og Daniel Theis (Indiana Pacers) með 21 stig.

Anthony Edwards úr Minnesota Timberwolves var stigahæstur Bandaríkjamanna með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×