Handbolti

Janus Daði sá rautt þegar Mag­deburg tapaði stór­leiknum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Janus Daði í baráttu við Svíann Max Darj í leiknum í kvöld.
Janus Daði í baráttu við Svíann Max Darj í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason léku báðir með Magdeburg sem tapaði gegn Fusche Berlin á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Spenna var fyrir leikinn í kvöld enda um að ræða tvö af sterkustu liðum deildarinnar sem barist hafa um toppsætin í deildinni síðustu árin.

Fyrri hálfleikur var jafn þó heimamenn í Fusche Berlin hafi verið skrefinu á undan. Berlínarrefirnir leiddu 14-12 í hálfleik en Janus Daði og Ómar Ingi komu inn af bekknum í fyrri hálfleiknum. Ómar Ingi er að koma til baka eftir erfið meiðsli en hann misnotaði tvö vítaköst í fyrri hálfleiknum og á eðlilega nokkuð í land með að ná fyrri styrk.

Janus Daði var sprækur og duglegur að búa til færi fyrir samherja sína í sókninni.

Í upphafi síðari hálfleiks tókst heimamönnum í Fusche Berlin að auka forystuna jafnt og þétt. Mestur varð munurinn sex mörk og heimaliðið skrefinu á undan allan síðari hálfleikinn. Mestur varð munurinn sex mörk og í raun aldrei spurning í seinni hálfleiknum hvoru megin sigurinn myndi enda.

Undir lokin fékk Janus Daði síðan rautt spjald fyrir brot á leikmanni Fusche Berlin. Dómurinn var harður en dómarar leiksins mátu sem svo að Janus Daði hefði slegið andstæðinginn á viðkvæman stað í tilraun sinni til að ná boltanum. Atvikið var augljóslega óviljaverk en bæði rauða og bláa spjaldið fóru á loft.

Lokatölur 31-26 og fyrsta tap Magdeburg á tímabilinu því staðreynd. Fusche Berlin er hins vegar með fullt hús stiga.

Janus Daði og Ómar Ingi skoruðu báðir þrjú mörk fyrir Evrópumeistara Magdeburg í kvöld en Mikael Damgaard var markahæstur með fjögur mörk. Hinn síungi Hans Lindberg var fremstur í flokki hjá Fusche Berlin en hann skoraði átta mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×