Handbolti

Flens­burg með sigur í fyrstu um­ferðinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Teitur Örn í leik með Flensburg.
Teitur Örn í leik með Flensburg.

Teitur Örn Einarsson og samherjar hans í Flensburg unnu góðan fimm marka heimasigur gegn Hamburg þegar þýska úrvalsdeildin í handknattleik hófst í dag.

Flensburg hefur verið á meðal bestu liða í þýsku deildinni um árabil og er Teitur Örn eini Íslendingurinn á mála hjá félaginu.

Heimamenn í Flensburg voru með yfirhöndina allan tímann í dag. Liðið leiddi 16-14 í hálfleik og komst sex mörkum yfir fljótlega í síðari hálfleiknum. Lokatölur 37-32 og Flensburg því að byrja vel í úrvalsdeildinni.

Johannes Golla var markahæstur hjá Flensburg í dag með 10 mörk og Kay Smits skoraði 8. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað. Hjá Hamburg skoraði Casper Mortensen 7 mörk.

Lærisveinar Heiðmars Felixsonar í Hannover Burgdorf unnu sætan útisigur á Erlangen en leikur liðanna fór einnig fram í kvöld. Hannover Burgdorf byrjaði betur og komst fjórum mörkum yfir snemma leiks og leiddu 16-13 í hálfleik.

Í síðari hálfleik bitu hins vegar heimamenn frá sér. Þeir náðu forystunni í stöðunni 25-24 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir og leikurinn í járnum. Gestunum tókst hins vegar að skora þrjú síðustu mörkin og tryggja sér góðan sigur. Lokatölur 27-24 og Heiðmar og lærisveinar hans geta því fagnað góðum sigri.

Marius Steinhauser var markahæstur hjá gestunum með 8 mörk og Simon Jeppsson skoraði 6 fyrir Erlangen.

Þýska úrvalsdeildin heldur áfram á morgun en þá verður Íslendingaliðið Magdeburg í heimsókn hjá Wetzlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×