Körfubolti

NBA lið að hluta til til sölu fyrir litlar 8 milljónir dollara

Siggeir Ævarsson skrifar
Oft var talað um Jay Z sem eiganda Brooklyn Nets, en hann átti um 0,2% hlut í liðinu
Oft var talað um Jay Z sem eiganda Brooklyn Nets, en hann átti um 0,2% hlut í liðinu Vísir/Getty

Það er dýrt að kaupa lið í NBA deildinni. Síðasta lið til að skipta um eigendur var Phoenix Suns en kaupverðið var 4 milljarðar dollara. En nýlegar lagabreytingar hjá deildinni hafa nú gert áhugasömum smákaupendum auðveldara fyrir.

Samkvæmt reglum deildarinnar var minnihlutaeigendum óheimilt að kaupa minna en 1% hlut í liðum í deildinni en þeim reglum hefur nú verið breytt og er heimilt að kaupa 0,5% hlut. Þetta þýðir að það kostar ekki nema litlar 8 milljónir dollara (um einn milljarð íslenskra króna) að kaupa eignarhlut í ódýrustu liðum deildarinnar.

Áhugasamir sem eiga slíkt skotsilfur á milli handanna geta fjárfest í New Orleans Pelicans, Memphis Grizzlies eða Minnesota Timberwolves. Fyrir nokkur hundruð milljónir enn væri svo hægt að kaupa hlut t.d. í Indiana Pacers eða Detroit Pistons.

Hvort um góða fjárfestingu er að ræða skal ósagt látið, en henni fylgja í það minnsta góð sæti við völlinn og kaupendur geta látið eins og rapparinn Jay Z, þóst eiga lið í NBA en vera í raun algjörlega áhrifalaus skrautfjöður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×