Innlent

Erfitt að manna stöður við gosið: Vilja að stjórn­völd stígi fastar inn í

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Otti Rafn Sigmarsson, forstjóri Landsbjargar, ræddi við fréttamann við gosstöðvarnar í kvöld.
Otti Rafn Sigmarsson, forstjóri Landsbjargar, ræddi við fréttamann við gosstöðvarnar í kvöld. Vísir

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir erfitt að manna störf björgunarsveitanna við gosstöðvarnar. Að stjórnvöld mættu stíga fastar inn og hjálpa til við vöktun á svæðinu. 

„Það er auðvitað fullt af fólki sem vill leggja leið sína hingað og reynslan segir okkur að það er auðveldara að stika leið að gosinu og halda fólki á einum stað heldur en að reyna að hafa lokað og fá fólk alls staðar,“ segir Otti í samtali við Kristján Má við gosstöðvarnar.

Hann segir að í kvöld verði unnið að því að stika leið að eldgosinu og gera megi ráð fyrir að hún verði tilbúin á morgun.

Finnst ykkur það skynsamlegast að láta fólk fara þessa leið?

„Já, eins og staðan er í dag, og miðað við það hættumat sem veðurstofan hefur gefið út þá er þetta skynsamlegasta leiðin.“

Aðspurður hvernig gangi að fá björgunarsveitarfólk til starfa í miðjum júlímánuði segir Otti það ekki ganga vel. „Þetta er besti tíminn og versti tíminn. Veðurfarið er fínt og þá er bara fínt að koma hérna og heimsækja gosstöðvarnar en fólkið okkar er útivistarfólk upp til hópa og í sumarfríi og annars staðar en að vera hér,“ segir hann. 

Svo þið viljið að þessu ljúki sem fyrst?

„Já, að þessu ljúki eða að stjórnvöld stígi sterkar inn í þetta strax. Við enduðum síðasta eldgos á að hér voru komnir landverðir og lögregluþjónar á vakt og sjúkraflutningamenn og við hefðum viljað sjá þetta fólk strax hérna á fyrsta degi. Við vitum ekki hvenær við eigum von á þeim.“


Tengdar fréttir

Geti staðið yfir í mánuði verði ekki skrúfað fyrir

Framleiðni eldgossins við Litla-Hrút hefur líklegast dregist saman um helming frá því að gosið hófst í gær, að sögn prófessors í eldfjallafræði. Gosopið hafi nú minnkað og kvikustrókarnir um leið hækkað til muna. Gosið geti varið í vikur og jafnvel mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×