Fyrir leikinn í dag hafði Zalgiris unnið sína tvo leiki á heimavelli og Rytas sömuleiðis unnið sinn heimaleik. Staðan í einvíginu var því 2-1 fyrir Zalgiris sem hafði því unnið sér inn tækifæri á að vinna meistaratitilinn í tuttugasta og fjórða sinn en Rytas varð meistari á síðustu leiktíð.
Gestirnir í Zalgiris byrjuðu leikinn í dag betur og komust meðal annars í 21-9 forystu í fyrsta leikhluta. Heimaliðinu gekk illa að saxa á forskotið og gestirnir frá Kaunas voru með 40-32 forystu í leikhléi.
Í þriðja leikhluta náðu heimamenn í Rytas hins vegar að komast nær liði Zalgiris. Munurinn varð minnstur tvö stig í stöðunni 47-45 en Zalgiris lauk leihlutanum á þriggja stiga körfu og var með 50-45 forystu fyrir lokafjórðunginn.
Þar vantaði ekki dramatíkina. Zalgiris Kaunas komst sjö stigum yfir í stöðunni 63-56 en þá náði Rytas 8-0 kafla og náði forystunni 64-63 í fyrsta sinn í leiknum með um tvær mínútur eftir á klukkunni. Gestirnir rönkuðu þá við sér á ný og skoruðu fimm stig í röð og náðu fjögurra stiga forystu og virtust ætla að tryggja sér titilinn.
Lið Rytas var hins vegar sterkara þegar mest var undir. Þeir náðu að minnka muninn í eitt stig og skoruðu síðustu körfu leiksins þegar skammt var eftir. Lokatölur 69-68 og Rytas knýr þar með fram oddaleik um titilinn.
Elvar Már lék í rúmar fimmtán mínútur í leiknum í dag. Hann komst ekki á blað, gaf þrjár stoðsendingar og tók eitt frákast.