Körfubolti

Elvar Már og fé­lagar knúðu fram odda­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már og félagar verða að sætta sig við silfrið.
Elvar Már og félagar verða að sætta sig við silfrið. Rytas

Elvar Már Friðiksson og félagar hans í Rytas náðu að knúa fram oddaleik í einvígi þeirra gegn Zalgiris um litháíska meistaratitilinn í körfubolta. Rytas vann eins stigs sigur í fjórða leik liðanna í dag.

Fyrir leikinn í dag hafði Zalgiris unnið sína tvo leiki á heimavelli og Rytas sömuleiðis unnið sinn heimaleik. Staðan í einvíginu var því 2-1 fyrir Zalgiris sem hafði því unnið sér inn tækifæri á að vinna meistaratitilinn í tuttugasta og fjórða sinn en Rytas varð meistari á síðustu leiktíð.

Gestirnir í Zalgiris byrjuðu leikinn í dag betur og komust meðal annars í 21-9 forystu í fyrsta leikhluta. Heimaliðinu gekk illa að saxa á forskotið og gestirnir frá Kaunas voru með 40-32 forystu í leikhléi.

Í þriðja leikhluta náðu heimamenn í Rytas hins vegar að komast nær liði Zalgiris. Munurinn varð minnstur tvö stig í stöðunni 47-45 en Zalgiris lauk leihlutanum á þriggja stiga körfu og var með 50-45 forystu fyrir lokafjórðunginn.

Þar vantaði ekki dramatíkina. Zalgiris Kaunas komst sjö stigum yfir í stöðunni 63-56 en þá náði Rytas 8-0 kafla og náði forystunni 64-63 í fyrsta sinn í leiknum með um tvær mínútur eftir á klukkunni. Gestirnir rönkuðu þá við sér á ný og skoruðu fimm stig í röð og náðu fjögurra stiga forystu og virtust ætla að tryggja sér titilinn.

Lið Rytas var hins vegar sterkara þegar mest var undir. Þeir náðu að minnka muninn í eitt stig og skoruðu síðustu körfu leiksins þegar skammt var eftir. Lokatölur 69-68 og Rytas knýr þar með fram oddaleik um titilinn.

Elvar Már lék í rúmar fimmtán mínútur í leiknum í dag. Hann komst ekki á blað, gaf þrjár stoðsendingar og tók eitt frákast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×