Körfubolti

At­hugaði hvort LeBron vildi koma til Dallas

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vill fá sinn gamla vin til Dallas.
Vill fá sinn gamla vin til Dallas. Vísir/Getty

Kyrie Irving hefur haft samband við fyrrverandi samherja sinn LeBron James í von um að sannfæra hann um að spila með sér í Dallas á næstu leiktíð í NBA-deildinni í körfubolta.

Hinn 38 ára gamli LeBron fór alla leið í úrslitaleik Vesturdeildarinnar með lið sitt Los Angeles Lakers. Þar beið það lægri hlut gegn Denver Nuggets sem leikur nú til úrslita gegn Miami Heat.

LeBron spilaði alla úrslitakeppnina á „öðrum fæti“ ef svo má að orði komast en hann var meiddur á fæti og þarf eflaust að fara í aðgerð í sumar. Eftir að Lakers féll úr leik var LeBron spurður út í framtíð sína og sagðist hann þurfa að hugsa sig um. Samningur hans við Lakers gildi þó eitt ár til viðbótar.

Fyrr á leiktíðinni var talið að Lakers hefði áhuga á að fá Kyrie Irving í sínar raðir þegar ljóst var að hann yrði ekki áfram hjá Brooklyn Nets. Þaðan fór hann til Dallas Mavericks en segja má að um martraðarskipti hafi verið að ræða og komst Dallas ekki í úrslitakeppnina.

Þrátt fyrir að vera samningslaus í sumar virðist sem Kyrie stefni á að vera áfram í Dallas og nú hefur Shams Charania, einn virtasti NBA-blaðamaðurinn vestanhafs, greint frá því að Kyrie hafi spurt LeBron hvort hann hafi áhuga á að koma til Dallas.

Kyrie virðist æstur í að endurnýja kynnin en þeir félagar urðu meistarar með Cleveland Cavaliers vorið 2016 eftir eina fræknustu endurkomu í sögu deildarinnar. Cleveland varð þá fyrsta lið sögunnar til að vinna titilinn eftir að lenda 3-1 undir í úrslitaeinvíginu.

Ekki hefur komið fram hvort LeBron hafi áhuga en ljóst er að ef hann ákveður að færa sig um set verður það frétt sumarsins í NBA-deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.