Handbolti

„Sjálf­sagt að gagn­rýna mig en það má vera mál­efna­legt“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson kynnti nýjan landsliðsþjálfara til leiks á blaðamannafundi í dag. Dagur Sigurðsson var einn þeirra sem rætt var óformlega við vegna starfsins en Degi blöskraði hvernig HSÍ vann málið.
Guðmundur B. Ólafsson kynnti nýjan landsliðsþjálfara til leiks á blaðamannafundi í dag. Dagur Sigurðsson var einn þeirra sem rætt var óformlega við vegna starfsins en Degi blöskraði hvernig HSÍ vann málið. vísir/Vilhelm og Getty

„Hann má alveg hafa sína gagnrýni á þessu,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, á blaðamannafundi í dag þegar hann var spurður út gagnrýni Dags Sigurðssonar á vinnubrögð sambandsins við ráðningu nýs landsliðsþjálfara karla í handbolta.

Snorri Steinn Guðjónsson var í dag kynntur sem nýr landsliðsþjálfari til næstu þriggja ára.

Snorri og Dagur voru á meðal fyrstu manna sem að HSÍ hafði samband við í leit að arftaka Guðmundar Guðmundssonar, fyrir þremur mánuðum síðan. Dagur, sem er núverandi landsliðsþjálfari Japans, sagðist hins vegar í viðtali við Vísi í apríl telja fund sinn með HSÍ hafa verið vísi að leikriti.

Dagur gagnrýndi vinnubrögð HSÍ harðlega og sagðist skilja að „Guðmundur Guðmundsson hafi átt í erfiðu samstarfi þarna ef þetta eru vinnubrögðin“. Til að mynda hafi HSÍ stungið upp á því að funda með Degi á kaffihúsi, þó fundurinn hafi á endanum farið fram annars staðar, og að fimm vikum eftir fundinn hefði enn ekki heyrst múkk frá HSÍ.

„Við Dagur áttum fund saman og ég ætla ekki að fara að greina neitt nánar frá því,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundinum í dag.

„Við áttum mjög heiðarlegt og gott spjall. Hann upplýsti það, eins og hann hefur upplýst í fjölmiðlum, að hann er með samning við Japan til ágúst 2024, svo það setti þá mynd í ákveðna stöðu. Við vissum því bara af þeim kosti en sá kostur varð ekki ofan á.“

Spurður enn frekar út í gagnrýni Dags á vinnubrögð formannsins svaraði Guðmundur:

„Ég fer ekkert út í nein persónuleg samtöl við Dag. Hann má alveg hafa sína gagnrýni á því. Ég held að við höfum alveg staðið rétt að þessu og hef ekki meira um það að segja. Ég fer ekki í hnútukast við menn fyrir að gagnrýna mig. Það er alveg sjálfsagt að gagnrýna mig en það má vera málefnalegt.“

Klippa: Guðmundur um gagnrýni Dags


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×