ÍBV getur orðið Íslandsmeistari í handbolta karla í kvöld þegar þeir taka á móti Haukum út í Eyjum.
Eyjamenn hafa unnið sjö fyrstu leiki sína í úrslitakeppnina, eru 2-0 yfir í úrslitaeinvíginu á móti Haukum og vantar bara einn sigur til að tryggja sér þriðja Íslandsmeistaratitilinn.
Hinir Íslandsmeistaratitlarnir hafa komið í hús í Hafnarfirði (2014 á Ásvöllum og 2018 í Kaplakrika) en núna getur karlalið ÍBV lyft Íslandsbikarnum úti í Eyjum í fyrsta sinn.
Það er athyglisvert að skoða gengi Eyjamanna í þessari stöðu, það er þegar liðið getur tryggt sér annað hvort Íslandsmeistaratitilinn eða bikarmeistaratitilinn með sigri.
Eyjamenn hafa sex sinnum verið í slíkri stöðu og þeir hafa fagnað sigri í öll skiptin, tvisvar í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn og fjórum sinnum í bikarúrslitaleik.
Hér fyrir neðan má sjá listann yfir þau skipti þar sem Eyjamenn sjá bikar í boði á hliðarlínunni.
- Leikir þar sem karlalið ÍBV hefur getað tryggt sér stóran titil:
- 7. mars 2020 í Laugardalshöll BIKARMEISTARAR
- Tveggja marka sigur á Stjörnunni (26-24) í bikarúrslitaleik
- -
- 19. maí 2018 í Kaplakrika ÍSLANDSMEISTARAR
- Átta marka sigur á FH (28-20) í fjórða leik úrslitaeinvígisins
- -
- 10. mars 2018 í Laugardalshöll BIKARMEISTARAR
- Átta marka sigur á Fram (35-27) í bikarúrslitaleik
- -
- 28. febrúar 2015 í Laugardalshöll BIKARMEISTARAR
- Eins marks sigur á FH (23-22) í bikarúrslitaleik
- -
- 15. maí 2014 á Ásvöllum ÍSLANDSMEISTARAR
- Eins marks sigur á Haukum (29-28) í oddaleik úrslitaeinvígisins
- -
- 2. mars 1991 í Laugardalshöll BIKARMEISTARAR
- Fjögurra marka sigur á Víkingum (26-22) í bikarúrslitaleik