Körfubolti

Elvar og félagar tryggðu sér sæti í úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már og félagar eru á leið í úrslit.
Elvar Már og félagar eru á leið í úrslit. Rytas

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Rytas Vilnius tryggðu sér í dag sæti í úrslitum litháíska körfuboltans er liðið vann fimm stiga sigur gegn Jonava í þriðju viðureign liðanna, 90-85.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda og voru það gestirnir í Jonava sem leiddu með sex stigum að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir náðu svo mest tólf stiga forskoti í öðrum leikhluta, en Elvar og félagar snéru taflinu við fyrir hálfleik og staðan var 42-38, Rytas í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn í Rytas tóku svo öll völ á vellinum í þriðja leikhluta og náðu mest 17 stiga forskoti. Gestirnir klóruðu þó í bakkann og minnkuðu muninn niður í ellefu stig fyrir lokaleikhlutann. Þeir söxuðu svo jafnt og þétt á forskot heimamann í lokaleikhlutanum, en náðu ekki að snúa leiknum sér í hag og Elvar og félagar unnu að lokum fimm stiga sigur, 90-85.

Rytas hefur því unnið alla þrjá leiki liðanna í einvíginu og eru því búnir að tryggja sér sæti í úrslitum þar sem liðið mætir annað hvort Zalgiris Kaunas eða Lietkabelis, en fyrrnefnda liðið leiðir það einvígi 2-0.

Elvar hafði heldur hægt um sig í leik dagsins miðað við síðasta leik, en hann skoraði þrjú stig í dag og gaf þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×