Körfubolti

Carmelo Anthony hættur í körfubolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carmelo Anthony lék með Denver Nuggets fyrstu ár ferilsins í NBA-deildinni.
Carmelo Anthony lék með Denver Nuggets fyrstu ár ferilsins í NBA-deildinni. getty/Doug Pensinger

Körfuboltamaðurinn Carmelo Anthony hefur lagt skóna á hilluna. Hann er níundi stigahæsti leikmaður í sögu NBA og þrefaldur Ólympíumeistari.

Eftir að hafa orðið háskólameistari með Syracuse 2003 valdi Denver Nuggets Anthony með þriðja valrétti í nýliðavalinu það ár.

Denver komst í úrslitakeppnina öll tímabil Anthonys hjá liðinu og alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar 2009. Tveimur árum síðar var Anthony skipt til New York Knicks. Hann lék með Knicks í sex ár en liðið vann aðeins eitt einvígi í úrslitakeppninni á þeim tíma.

Anthony á metið yfir flest stig í leik hjá Knicks en hann skoraði 62 stig í leik gegn Charlotte Bobcats í janúar 2014. Anthony varð stigakóngur NBA tímabilið 2012-13 en þá var hann með 28,7 stig að meðaltali í leik.

Anthony var skipt til Oklahoma City Thunder 2017 og lék þar í eitt tímabil. Hann fór svo til Houston Rockets, Portland Trail Blazers og loks Los Angeles Lakers á síðasta tímabili.

Á ferli sínum í NBA var Anthony tíu sinnum valinn til að spila í stjörnuleiknum, tvisvar sinnum í öðru úrvalsliði deildarinnar og fjórum sinnum í því þriðja.

Anthony skoraði 28.289 stig í 1.260 leikjum í NBA, eða 22,5 stig að meðaltali í leik. Aðeins átta leikmenn hafa skorað meira.

Anthony varð Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu 2008, 2012 og 2016. Hann er sá eini sem hefur unnið þrjár gullmedalíur. Anthony er stiga-, frákasta- og leikjahæstur í Ólympíusögu bandaríska landsliðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×